Obama aldrei vinsælli

Niðurstöður nýrrar könnunar sýna fram á að Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseti, hafi aldrei verið vinsælli en einmitt nú. Könnun CNN/Opinion Research Corp., sem var birt í dag, bendir jafnframt til þess að Bandaríkjamenn telji að embættistaka Obama sé tækifæri fyrir þjóðina að sýna samstöðu.

84% svarenda segja að þeir séu ánægðir með störf Obama. Það er tveimur prósentustigum meira en var í könnun sem var birt um miðjan desember og fimm prósentustigum meira en í könnun sem var birt í byrjun sama mánaðar.

Stuðningurinn hefur aukist þrátt fyrir ýmis vandamál sem hafa komið upp. T.d. þegar Bill Richardson, ríkisstjóri Nýju Mexíkó, afþakkaði embætti viðskiptaráðherra í stjórn Obama. Ástæðan er sú, að rannsóknarkviðdómur rannsakar nú hvort Richardson hafi veitt fyrirtæki, sem gaf rausnarlega í kosningasjóði ríkisstjórans, óeðlilega fyrirgreiðslu.

Þá hefur Timothy F. Geithner, sem Barack Obama vill að gegni embætti fjármálaráðherra Bandaríkjanna í væntanlegri stjórn sinni, verið krafinn skýringa á því hvers vegna hann greiddi aðeins 34.000 dollara í alríkisskatta á nokkrum árum í upphafi aldarinnar.

Þá hafa margir rekið upp stór augu þegar Obama útnefndi Leon Panetta, sem er sjötugur demókrati, sem yfirmann CIA, en reynsla hans af leyniþjónustu störfum er engin.

„Ef almenningur sakar Obama um að hafa misstigið sig þá er það ekki að greinast í skoðanakönnuninni,“ segir Keating Holland, sem hefur yfirumsjón með gerð skoðanakannana hjá CNN. „Það er ljóst að þjóðin er í miðri brúðkaupsferð þegar sex af hverjum 10 repúblikönum eru jákvæðir í garð Obama,“ segir hann jafnframt.


Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseti, ásamt Joe Biden, verðandi varaforseta Bandaríkjanna.
Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseti, ásamt Joe Biden, verðandi varaforseta Bandaríkjanna. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert