Gefur milljarð dala

Konungur Sádi-Arabíu, Abdullah bin Abdulaziz, tilkynnti í dag að hann muni gefa 1 milljarð dala, jafnvirði 130 milljarða króna, til endurbyggingar á Gasasvæðinu eftir hernað Ísraelsmanna.

„Fyrir hönd Sáda lýsi ég yfir eins milljarðs dala framlags til áætlana um að endurbyggja Gasa," sagði konungur við upphaf leiðtogafundar Arabaríkja í Kúveit í dag.  

Abdullah gagnrýndi Ísraelsmenn fyrir að beita óhóflegu valdi á Gasasvæðinu og sagði að einn dropi af blóði Palestínumanna væri dýrmætari en allir peningar heimsins.

Sagði konungur, að  friðartilboð Araba til Ísraelsmanna verði ekki endalaust upp á borðinu og Ísraelsmenn verði að skilja, að val milli stríðs og friðar verði ekki alltaf í boði. Arabaríki hafa boðist stil að viðurkenna Ísraelsríki gegn því að Ísraelsmenn yfirgefi það landsvæði, sem þeir hernámu í sex daga stríðinu svonefnda árið 1967.

Á fundinum í Kúveit er fjallað um leiðir til að auka hagvöxt og þróunarstarf í Arabaheiminum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert