Geymdi lík til að fá bætur

Leiðtogi sértrúarsöfnuðar í Wisconsin í Bandaríkjunum hefur verið handtekinn fyrir að geyma rotnandi lík af kvenkyns safnaðarmeðlimi sínum, í tvo mánuði, inni á baðherbergi annars sóknarbarns. Presturinn, Alan Bushey, er sagður hafa geymt líkið af konunni, sem var níræð þegar hún lést, til þess að ekki kæmist upp um andlát hennar. Tilgangurinn var sá að ná félagslegu bótunum hennar.

Bushey, sem er 58 ára gamall leiðtogi safnaðarins „Regla hins guðlega vilja“, á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi og 25 þúsund dollara sektargreiðslu, en dómur verður kveðinn upp yfir honum í maí. Saksóknari í Juneau sýslu í Wisconsin heldur því fram að Bushey hafi skilið lík konunnar eftir sitjandi á klósettinu, en að hann hafi tjáð húsráðandanum að Guð myndi endurlífga hana. Líkamsleifar konunnar fundust tveimur mánuðum síðar eftir að fjölskylda hennar fór að grennslast fyrir um afdrif hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert