Marijúananotkun eykur líkur á eistnakrabbameini

Tíð eða langvinn notkun á marijúana er talin auka líkurnar á krabbameini í eistum, samkvæmt nýlegri bandarískri rannsókn.

369 karlmenn, 18 til 44 ára, sem allir höfðu greinst með eistnakrabbamein voru spurðir um marijúananotkun. Svör þeirra voru borin saman við svör 1.000 karlmanna sem ekki höfðu notað marijúana. Niðurstöðurnar sýna að mati vísindamanna ótvírætt fram á fylgni. Þeir sem höfðu notað marijúana voru í tvöfalt meiri hættu á að fá krabbamein í eistum en þeir sem aldrei neyttu efnisins. Áhættan jókst margfalt ef um var að ræða reglulega eða langvinna notkun efnisins.

Niðurstöðurnar benda ennfremur til að þeim sem neyta marijúana er hættara við að fá illvígara krabbamein í eistu en þeim sem ekki hafa neytt marijúana. Hingað til hafa vísindamenn ekki fundið tengsl milli marijúananotkunar og krabbameins.

Vísindamenn telja að notkun marijúana sé ennfremur mun hættulegri fyrir eða á kynþroskaaldri, þá séu drengir viðkvæmari fyrir umhverfisþáttum, til dæmis efnasamböndum í marijúana.

Krabbamein í eistum er eitt algengasta krabbamein sem karlmenn fá. Í Bretlandi greinast að meðaltali um 2.000 ný tilfelli á hverju ári. Nýgengi eistnakrabbameins er enn algengara í nokkrum Evrópulöndum og Bandaríkjunum. Nýjum tilfellum hefur fjölgað ört á undanförnum árum án sýnilegrar skýringar.

Þekktir áhættuþættir eistnakrabbameins eru m.a. áverkar sem karlmenn verða fyrir á eistum, fjölskyldusaga og þegar eista gengur ekki niður, en slíkt veldur margfaldri áhættu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert