Bandaríkjaþing afgreiðir efnahagsaðgerðir

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í nótt með 60 atkvæðum gegn 38 endanlega útgáfu af frumvarpi um efnahagsaðgerðir, sem Barack Obama, Bandaríkjaforseti, lagði mikla áherslu á að yrði samþykkt fyrir helgina. Í gærkvöldi samþykkti fulltrúadeildin frumvarpið með 246 atkvæðum gegn 183. Gert er ráð fyrir að Obama staðfesti lögin í dag en samkvæmt þeim verður 787 milljörðum dala varið til að örva efnahagslíf landsins.

Enginn þingmaður repúblikana greiddi atkvæði með frumvarpinu í fulltrúadeildinni en flokkurinn telur að skattalækkanir, sem felast í því, séu ekki nægar. Þá greiddu sjö þingmenn demókrata atkvæði gegn frumvarpinu. Í öldungadeildinni greiddu þrír þingmenn repúblikana atkvæði með frumvarpinu.

Gert er ráð fyrir, að féð sem notað verður til efnahagsaðgerðanna verði tekið að láni. 36% verður varið til skattalækkana og 64% til ýmissa útgjaldaliða, svo sem í velferðarkerfinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert