Vill herða innflytjendalöggjöf

Tobias Billström
Tobias Billström

Svíar verða að herða reglur um innflytjendur segir innflytjendamálaráðherra Svíþjóðar. Hann segir að stefna Svía í innflytjendamálum hafi beðið skipbrot og nauðsynlegt sé að vísa fleiri hælisleitendum frá og afturkalla ríkisborgararétt í einhverjum tilvikum.

Tobias Billström, innflytjendamálaráðherra Svíþjóðar og tveir háttsettir  stjórnmálamenn miðflokksins, skrifa í dag blaðagrein um innflytjendamál en flokkur Billström skilaði nýlega skýrslu um innflytjendamál.

Í greininni er stefna Svía harðlega gagnrýnd og hvatt til róttækra breytinga.

„Margir innflytjendur þiggja bætur svo árum skiptir og eru háðir hinu opinbera,“ segir í greininni. Ennfremur segir að stór hluti flóttamanna sem koma til landsins séu ekki á vinnumarkaði og hælisleitendur með sakaskrá fái að dvelja óáreittir í landinu.

Billström vill að hælisleitendum sem gerst hafa brotlegir við lög verði umsvifalaust vísað úr landi. Þá segir Billström að umsvifalaust eigi að svipta þá sænsku vegabréfi, sem beitt hafi blekkingum við umsókn um ríkisborgararétt.

Innflytjendalöggjöf í Svíþjóð hefur verið hert til muna frá því ríkisstjórn hægri- og miðflokkanna tók við völdum í október 2006. Billström vill enn hertari löggjöf. Hann vill að innflytjendur skrifi undir nokkurs konar samkomulag við stjórnvöld sem meðal annars felur í sér skyldu innflytjenda til að læra sænsku.

Skýrsla Billströms og félaga hans í Miðflokknum um innflytjendamál verður rædd í ríkisstjórn og síðan lögð fyrir sænska þingið.

Hagstofa Svíþjóðar segir að 101 þúsund útlendingar hafi sótt um hæli eða dvalarleyfi í landinu í fyrra, fleiri en nokkru sinni fyrr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert