Fjöldahandtökur í Kaupmannahöfn voru ólöglegar

Mikil mótmæli voru í Kaupmannahöfn í byrjun ársins 2007 vegna …
Mikil mótmæli voru í Kaupmannahöfn í byrjun ársins 2007 vegna deilna um Ungdomshuset. Reuters

Hæstiréttur Danmerkur hefur komist að þeirri niðurstöðu, að lögregla hafi brotið lög þegar hún handtók 80 manns vegna mótmæla  í Rødovre, úthverfi Kaupmannahafnar, haustið 2006. Því eigi þeir, sem handteknir voru, rétt á bótum.

Einn mótmælendanna handleggsbrotnaði í átökum við lögreglu, sem beitti kylfum og hundum. 

Boðað hafði verið til mótmæla við kirkju trúfélagsins Faderhuset, sem skömmu áður hafði keypt Ungdomshuset á Norðurbrú í Kaupmannahöfn þar sem rekin var félagsmiðstöð. Mikil mótmæli brutust út í borginni vegna áforma Faderhuset um að rífa Ungdomshuset. 

Um átta tugir mótmælenda hjóluðu frá Kaupmannahöfn til Rødovre. Þar réðust nokkrir úr hópnum inn í kirkju Faderhuset og hófu að skemma innanstokksmuni. Lögreglan ákvað þá að handtaka alla, sem safnast höfðu saman við kirkjuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert