Endurskoða yfirstjórn bankamála

Brian Cowen
Brian Cowen Reuters

Írar ætla að skipa nýja seðlabankastjórn og gera verulegar endurbætur á regluverki varðandi bankakerfið, að sögn Brian Cowen forsætisráðherra í dag. Þetta er gert í kjölfar nokkurra bankahneyksla sem komið hafa upp.

„Það verða gerðar róttækar breytingar á kerfinu og aðferðum við eftirlit og stjórn fjármálakerfisins,“ sagði írski forsætisráðherrann á ársfundi Fianna Fail flokksins.

Cowen gegndi áður starfi fjármálaráðherra. Hann á nú fullt í fangi með að stýra efnahagsmálum í Írlandi en fjármálakreppan hefur leikið efnahaginn hart. Stuðningur við forsætisráðherrann dvínar ört í skoðanakönnunum.

Hann sagði flokkssystkinum sínum að nýja seðlabankastjórnin yrði mótuð eftir kanadískri fyrirmynd og myndi bæði hafa með höndum stjórn seðlabankans og yfirstjórn fjármálaeftirlits.

Hart verður tekið á glæfrabankamönnum og þak sett á laun stjórnenda í bönkum sem fá opinberan stuðning. Í liðinni viku gerði lögregla og sérstök rannsóknardeild sem skoðar hvítflibbaglæpi húsrannsókn í höfuðstöðvum Anglo Irish bankans sem hefur verið þjóðnýttur. Margt þykir hafa farið úrskeiðis í stjórn bankans og ýmislegt vafasamt í útlánasögu hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert