Litla hafmeyjan send til Shanghæ

Litla hafmeyjan hefur setið lengi við Löngulínu í Kaupmannahöfn en …
Litla hafmeyjan hefur setið lengi við Löngulínu í Kaupmannahöfn en mun nú leggja land undir sporð. AP

Borgarstjórn Kaupmannahafnar samþykkti í dag með 36 atkvæðum gegn 12 að Litla hafmeyjan, stytta Edvards Eriksens, fari í fyrstu sjóferð sína í tæpa öld til að taka þátt í heimssýningunni í Sjanghæ á næsta ári. Tveir borgarfulltrúar sátu hjá. 

Þetta þýðir að hafmeyjan, sem venjulega situr við Löngulínu, mun 1. apríl 2010 halda til Kína og sinna þar sendiherrastörfum fyrir Dani í 10 mánuði.

Klaus Bondam, einn af borgarstjórum Kaupmannahafnar, sagði við Ritzau fréttastofuna í kvöld, að styttan muni án efa vekja mikla athygli í danska sýningarskálanum á heimssýningunni og verða til þess að  beina sjónum fjárfesta og erlendra fyrirtækja að Danmörku. 

Danir eru hins vegar ekki allir sáttir við að Litla hafmeyjan verði send til Kína. Nýleg viðhorfskönnun bendir til þess að sex af hverjum tíu Dönum vilji að styttan verði áfram á steini sínum við Löngulínu. Litla hafmeyjan er álitin þjóðargersemi og er einn helsti viðkomustaður ferðamanna sem koma til borgarinnar.

Heitar umræður urðu á danska þinginu í nóvember þegar Danski þjóðarflokkurinn krafðist þess að stjórnin félli frá þeirri hugmynd að senda styttuna til Kína. Flestir hinna stjórnmálaflokkanna töldu hins vegar að það myndi auka straum ferðamanna til landsins ef Litla hafmeyjan yrði notuð til landkynningar í Kína.

Ölgerðarmaðurinn Carl Jacobsen gaf Kaupmannahöfn styttuna árið 1913. Það var íslensk-danski myndhöggvarinn Edvard Eriksen, sem gerði styttuna og notaði Eline eiginkonu sína sem fyrirsætu.

Flugvöllurinn í Kaupmannahöfn, sem á minni afsteypu af Litlu hafmeyjunni, hefur boðist til að lána borginni sína styttu svo hún geti gætt steinsins við Löngulínu fyrir stóru systur sína á meðan hún er í útlöndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert