„Notaði hana eins og leikfang“

Josef Fritzl, Austurríkismaðurinn sem handtekinn var í apríl 2008 fyrir að hafa haldið dóttur sinni fanginni um áratugaskeið í kjallara og beitt hana kynferðislegu ofbeldi, lýsti sig saklausan af ákærum vegna morðs og þrælahalds við réttarhöld í Austurríki í morgun. Við morðákærunni liggur ævilangt fangelsi.

Fritzl er einnig ákærður fyrir nauðgun, sifjaspell og þvinganir, sem hann lýsti sig sekan um. Refsiramminn fyrir þau brot er 15 ár fyrir hvert þeirra. Hann faldi andlit sitt með skjalamöppu þegar hann mætti til réttarins í morgun.

Í opnunarávarpi sínu  sagði Christiane Burkheiser saksóknari að Fritzl hefði farið með dóttur sína eins og leikfang. Hún lýsti glæpum hans sem óskiljanlegum. „Hann ákvað hvers kyns matur fór niður í dýflissuna. Hann ákvað hvenær farið var með mat þangað niður. Oft var maturinn af skornum skammti,“sagði Burkheiser.

„Hann notaði hana eins og leikfang,“ sagði saksóknarinn og vísaði þannig til síendurtekinna nauðgana Josefs Fritzl á dóttur sinni. „Ég fór tvisvar sinnum þarna niður og þar er sjúklegt andrúmsloft. Þar er rakt og myglukennt,“ bætti hún við. Hún sagði að Fritzl hefði engin merki sýnt um iðrun eða að hann áttaði sig á því að hann hefði gert eitthvað rangt.

Elisabeth Fritzl, dóttirin sem hann hélt fanginni í kjallaranum í 24 ár, fæddi þar sjö börn. Eitt þeirra lést skömmu eftir fæðingu. „Hann vanrækti að sækja hjálp,“ þrátt fyrir beiðnir dóttur sinnar, þegar barnið lenti í vandræðum með að anda, sagði Burkheiser. „Það, kæru kviðdómendur, er morð vegna vanrækslu,“ sagði hún.

Rudolf Mayer, verjandi Fritzl, sagði hins vegar að umbjóðandi sinn væri maður en ekki skrímsli og bað kviðdómendur um að gæta hlutleysis.

Andrea Humer, forseti dómsins, sagði að í dag væri verið að rétta yfir einum manni, en ekki bænum Amstetten eða öllu svæðinu. Hún spurði Fritzl nokkurra spurninga um líf hans og starfsreynslu, áður en hún lét rýma dómssalinn. Önnur umræðuefni þykja of viðkvæm til að fjalla um fyrir opnum dyrum. 

Um 200 blaðamenn er í St. Poelten í Austurríki þar sem réttarhöldin eiga sér stað, en um helmingur þeirra hefur aðgang inn í dómshúsið. Einnig hefur verið tekið fyrir að þyrlur fljúgi yfir húsið, til að koma í veg fyrir að sjónvarpstökulið sveimi þar yfir næstu daga.

Josef Fritzl mætir til réttarhalda í morgun með andlit sitt …
Josef Fritzl mætir til réttarhalda í morgun með andlit sitt hulið fyrir ljósmyndurum. Ho
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert