Leigumorðingi játar 28 morð

Kanadískur leigumorðingi, Gerald Gallant, sem verið er að rétta yfir í Quebec, hefur játað að hafa framið 28 morð og gert 12 morðtilraunir síðustu 30 árin.

Meðal fórnarlamba Gallt eru meðlimir mótorhjólasamtaka og meintir meðlimir glæpasamtaka sem og saklausir borgarar sem voru á röngum stað á röngum tíma.

Gallant, sem er 58 ára, er nú þegar að afplána lífstíðardóm fyrir morð sem hann framdi árið 2001. Hann var handtekinn fyrir það árið 2006 eftir að hafa flúið til Evrópu. Nú hefur hann játað á sig 27 morð til viðbótar.

Síðan Gallant var handtekinn hefur hann gerst uppljóstrari fyrir lögregluna. Hann fær því ekki viðbótarrefsingu fyrir morðin 27 en í Bandaríkjunum er hægt að dæma fólk til margfalds líftíðarfangelsis. Gallant getur því sótt um reynslulausn eftir 25 ár. Skilyrði fyrir mildaðri refsingu var að Gallant myndi ekki skrifa bók eða framleiða mynd um glæpi sína. Hann verður verndaður í fangelsinu og mun fá um 4.500 kr. á mánuði til að eyða í mötuneyti fangelsisins.

Árið 2000 drap Gallant Robert Savard sem var meðlimur í Hell's Angels samtökunum. Þá særðist þjónustustúlka sem Savard þreif í og notaði til að skýla sér fyrir skotum Gallants. Árið 1999 myrti hann fyrir mistök einkaspæjara sem bjó í íbúð þar sem skotmarkið bjó áður. Gallant bað í dag ættingja og vini fórnarlamba sinna afsökunar.

„Mér þykir leitt hve ég hef sært fórnarlömbin og fjölskyldur þeirra,“ sagði hann. „Mér er fullljóst að það verður erfitt, jafnvel ómögulegt, að fyrirgefa mér. Ég skil það. Ég samþykkti að vinna með lögreglunni til að bæta það tjón sem ég hef valdið og óska fyrirgefningar.“ 

Lögreglan í Quebec hefur handtekið 10 manns í tengslum við tugi morða á vélhjólamönnum vegna upplýsinga frá Gallant.  

Bæjarstjóri Donnacona, bæjar skammt frá Quebec þar sem Gallant bjó í 20 ár, segir lítið hafa farið fyrir Gallant. Hann hafi haft gaman af að hjóla og verið hreinlátur. Gallant líti hversdagslega út og hafi verið erfitt að gera sér í hugarlund að hann gæti framið glæpi.

Aðferð Gallants var yfirleitt sú að skjóta fórnarlömb sín á börum eða veitingastöðum. Honum voru réttar morðbeiðnirnar á pappírssnifsum í kirkju. Þó Gallant sé einn af afkastamestu leigumorðingjum Kanada er hann ekki sá mikilvirkasti. Þann vafasama heiður fær Yves (Apache) Trudeau sem stofnaði Hells Angels í Quebec. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi  árið 1986 vegna 43 morða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert