Skotárás í Hollandi

Karlmaður dró upp byssu inni í veitingahúsi í Rotterdam í Hollandi í nótt og hóf skothríð á gesti. Hann fór síðan út og skaut á vegfarendur. Einn lét lífið og þrír særðust, að sögn lögreglu.

Vegfarendum tókst að yfirbuga manninn og halda honum þar til lögregla birtist.  Að sögn talsmanns lögreglunnar er ekki ljóst hvað manninum gekk til en hugsanlegt er að hann hafi lent í deilum inni á veitingastaðnum. Þar stóð yfir hæfileikakeppni og leikin var hávær tónlist.

Einn gestur á veitingastaðnum særðist og þrír vegfarendur fyrir utan og þar af lést einn. Óvenju fjölmennt var á torgi utan við veitingastaðinn en hlýtt var í veðri í Hollandi í nótt.  

Lögregla segir, að árásarmaðurinn sé 46 ára gamall, búsettur í Rotterdam. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert