Obama: Kúbustefna hefur ekki virkað

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði á leiðtogafundi Ameríkuríkja í Trinidad í dag, að stefna bandarískra stjórnvalda gagnvart Kúbu hefði ekki virkað. Hins vegar yrði stefnunni ekki breytt í bráð.

„Málefni pólitískra fanga, málfrelsi og lýðræði eru mikilvæg og þeim er ekki hægt að víkja til hliðar," sagði Obama í lok fundarins. Hann sagði á föstudag að hann væri reiðubúinn til viðræðna við stjórnvöld á Kúbu.

Þá sagði Obama, að Kúba og Venesúela, yrðu, sem og Bandaríkin, að láta gerðir fylgja orðum ef þau vildi bæta samskipti. Þótt merkja mætti jákvæðar vísbendingar væri það ekki nóg. 

Ekki náðist samstaða um lokayfirlýsingu fundarins, sem leiðtogar 34 ríkja sátu.  Patrick Manning, forsætisráðherra Trinidad & Tobago, sagði að yfirlýsingin sem gefin var út í lok fundarins hefði notið stuðnings margra ríkja en ekki allra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert