Kona Berlusconis segist þjást

Silvio Berlusconi.
Silvio Berlusconi. Reuters

Eiginkona Silvios Berlusconis, forsætisráðherra Ítalíu, skrifar opið bréf í ítalska fjölmiðla í dag þar sem hún segist þjást vegna áhuga eiginmanns síns á ungum og fallegum konum.

„Ég vil gera lýðum ljóst, að ég og börn mín erum fórnarlömb en ekki meðvirk í þessari stöðu. Við verðum að þola þetta og þjást," segir Veronica Lario í bréfinu.

Veronica fjallar einkum í bréfinu um val á frambjóðendum Frelsisflokks Berlusconis fyrir kosningar til Evrópuþingsins, sem fara fram í júní. Að sögn eru margir frambjóðendur ungar konur sem hafa litla sem enga stjórnmálareynslu.    

„Fallegar konur skipta litlu máli í pólitík," segir Lario, sem er fyrrum leikkona og 20 árum yngri en eiginmaðurinn. „En (Berlusconi) felur ósvífni sína og hömluleysi á bak við bogadregna framhlið kvenlegrar fegurðar... sem er móðgun við allar konur," segir Lario, „einkum þær sem hafa alltaf staðið í fararbroddi réttindabaráttunnar." 

Hún sagðist einnig undrandi á fréttum um að Berlusconi hefði hefði mætt í afmælisveislu 18 ára fegurðardísar í Napólí. „Ég varð hissa þegar ég frétti þetta vegna þess að hann mætti aldrei í 18 ára afmæli barnanna sinna þótt honum væri boðið."

Lario, sem er 52 ára, kemur sjaldan fram opinberlega með manni sínum. Þau eiga saman þrjú börn. 

Berlusconi er þekktur fyrir einkennileg ummæli sín, sem oft þykja karlrembuleg. Tveir ítalskir þingmenn kærðu forsætisráðherrann nýlega til Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir yfirlýsingar, sem taldar voru móðgandi í garð kvenna.

Berlusconi bað konu sína opinberlega afsökunar í janúar 2007 á að hafa daðrað við unga og fallega þingkonu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert