Dregur úr smithraða í Mexíkó

Flestar opinberar stofnanir í Mexíkó verða lokaðar næstu fimm daga til að reyna að hefta útbreiðslu svínaflensunnar sem herjar á landið. Einungis verður unnið á þeim stofnunum hins opinbera, sem taldar eru nauðsynlegastar þessa fimm daga. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Yfiröld í landinu segja að svo virðist sem tekist hafi að hægja á smithraða flensunnar undanfarna daga. Staðfest er að rekja megi tólf dauðsföll í landinu til flensunnar en grunur leikur á að rekja megi allt að 160 dauðsföll til hennar. Rúmlega þrjú hundruð tilfelli veikinnar hafa verið staðfest í Mexíkó og tólf tilfelli hafa nú verið staðfest í þremur heimsálfum utan Mexíkó.  

Íbúum landsins hefur verið ráðlagt að halda sig sem mest heima við til að forðast smit og öllum samkomum í tilefni af baráttudegi verkalýðsins hefur verið aflýst í landinu vegna flensunnar. 

Flestum verslunum og veitingastöðum í höfuðborgini Mexíkóborg hefur verið lokað frá því um síðustu helgi og skólar eru lokaðir. Þá hafa nokkur framleiðslufyrirtæki gert hlé á framleiðslu sinni.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert