Páfagarður gagnrýnir Berlusconi

Páfagarður blandaði sér í dag í deilur um siðferði Silvios Berlusconis, forsætisráðherra Ítalíu, en eiginkona forsætisráðherrans hefur sakað hann opinberlega um siðferðisbrest. Sagði háttsettur kardínáli að allir, og ekki síst þjóðarleiðtogar, eigi að haga sér af yfirvegun og alvöru. 

Um fátt er meira rætt á Ítalíu en opinberar deilur forsætisráðherrahjónanna.  Walter Kasper, kardínáli, sagði í dag að skilnaðardeilur fyrir opnum tjöldum væru vont fordæmi fyrir ungt fólk. „Bæði hjónin hefðu átt að sýna meiri nærgætni og taka tillit til friðhelgi einkalífsins," sagði hann. 

Veronica Lario, eiginkona Berlusconis, hefur sakað hann um að eltast við Noemi Letizia, 18 ára gamla dóttur viðskiptafélaga síns en Berlusconi mætti í afmælisveislu hennar í Napólí nýlega. „Það er lygi," sagði Berlusconi í samtali við sjónvarpsþáttinn Porta a Porta. „Faðir stúlkunnar hringdi í mig vegna þess að hann vildi hitta mig."

Berlusconi sagði, að það væri fjölmiðlum að kenna að eiginkona hans hefði komið fram með ásakanir og vildi nú fá skilnað. „Þetta hefði aldrei gerst ef fjölmiðlarnir hefðu sagt rétt frá," sagði hann í sjónvarpsþættinum og bætti við að eiginkona sín hefði fallið í gildru.  

Berlusconi gaf til kynna, að hann væri tilbúinn til að sættast við konu sína. Þau hafa verið gift í 19 ár og eiga þrjú uppkomin börn.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert