Traust á Brown og flokki hans fer þverrandi

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands hefur ríka ástæðu til að halda …
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands hefur ríka ástæðu til að halda um höfuð sér. Mikil reiði ríkir meðal bresks almennings vegna gengdarlausrar sóunar þingmanna og ráðherra í ríkisstjórn Browns á almannafé á sama tíma og kreppir að hjá hinum almenna skattgreiðanda. Reuters

Fylgi breska verkamannaflokksins mælist nú aðeins 23% samkvæmt nýrri skoðanakönnun. Fylgi verkamannaflokksins hefur ekki mælst minna frá því kannanir hófust árið 1943. Samkvæmt annarri könnun nýtur Gordon Brown einskis stuðnings. Sjö af hverjum tíu segja Brown rúinn trausti í kjölfar hrinu hneykslismála og siðspillingar breskra þingmanna.

Vinsældir ríkisstjórnar Brown voru ekki miklar fyrir en síðustu tvær vikur hafa ekki bætt úr skák. Upplýsingum um kostnaðargreiðslur til ráðherra og þingmanna á árunum 2004-2008 var lekið til blaðsins Daily Telegraph og er að því ýjað að lögbrot hafi verið framin í einhverjum tilvikum. 

Málið er vægast sagt vandræðalegt fyrir Gordon Brown, forsætisráðherra og Verkamannaflokk hans en í ljós kom, að Brown greiddi bróður sínum fyrir ræstingar og lét þingið borga brúsann. Þá rukkaði hann tvívegis sama pípulagningarreikninginn. 

Fleiri ráðherrar þurfa að svara óþægilegum spurningum vegna reikninga, sem þeir hafa fengið greidda.

Þingmenn Sinn Fein, þeirra á meðal Gerry Adams einn leiðtoga flokksins, hafa þegið greiðslur upp á 500 þúsund pund vegna íbúða í Lundúnum en fulltrúar Sinn Fein hafa þó ekki setið á breska þinginu.

John Gummer, þingmaður breska íhaldsflokksins fékk greidd rúm níu þúsund pund á ári af skattfé vegna garðvinnu en inni í þeirri upphæð voru 100 pund ári vegna skordýraeitrunar.

Kitty Ussher, ráðherra í ríkisstjórn Browns, lét breska ríkið fyrir stærstan hluta af 20 þúsund punda endurbótum á íbúð í Lundúnum skömmu eftir að hún tók sæti á þinginu. Ussher hafði búið í íbúðinni í fimm ár þegar öllu var bylt þar.

„Ég geri mér grein fyrir að þetta er töluvert meira en heimildir segja til um en vinsamlegast greiðið eins mikið og ykkur er unnt,“ sagði Ussher í orðsendingu til breska þingsins þegar hún krafðist endurgreiðslu vegna endurbótannna á íbúð sinni.

Jack Straw, dómsmálaráðherra varð m.a. að endurgreiða fé sem hann hafði fengið vegna of hárra reikninga sem hann sendi inn vegna húsnæðiskostnaðar og afborgunar veðlána.

Peter Mandelson, viðskiptaráðherra, lét greiða fyrir sig reikninga, sem hljóðuðu upp á um 3 þúsund pund vegna viðgerða á húsi sínu í Hartlepool eftir að hann hafði sagt af sér þingmennsku.

Og David Miliband eyddi hundruðum punda í garðinn á heimili sínu.

Listinn virðist nær endalaus.

Hugsanlegt er að lög hafi verið brotin í einhverjum tilvikum. Kreppan bítur Breta nú líkt og aðrar þjóðir. Fréttir af gengdarlausri sóun breskra þingmanna og ráðherra undanfarnar tvær vikur hafa vakið mikla reiði meðal bresks almennings. 

Fylgið hrynur af Verkamannaflokknum og raunar öðrum flokkum líka. Stjórnmálamenn eru uggandi en þingkosningar fara fram í Bretlandi um mitt næsta ár.

Í könnun sem gerð var dagana 7. til 9. maí sögðust aðeins 23% eða innan við fjórðungur styðja verkamannaflokkinn. Könnunin náði til rúmlega 2.000 manna.

Samkvæmt könnun sem ICM gerði fyrir News of the World weekly telja 68% Breta að fréttir af fjáraustri breskra þingmanna hafi skaðað Gordon Brown. 89% svarenda sögðu orðspor breskra þingmanna hafa beðið hnekki.

George Carey lávarður og fyrrum erkibiskup af Kantarborg gerir siðspillinguna og sóun þingmanna að umtalsefni í blaðagrein. Carey lávarður segir að það sé efamál hvort breskum stjórnmálamönnum takist að endurvinna traust almennings eftir þessa hrinu hneykslismála.

„Siðferði á þinginu hefur hnignað mjög og hefur ekki verið minna í manna minnum,“ skrifar Carey lávarður.

Gordon Brown hefur heitið að breyta reglum um starfsgreiðslur til þingmanna og ráðherra. Þá hefur einn nánasti samstarfsmaður hans, Ed Miliband, sagt að umræður undanfarinna tveggja vikna hafi verið þörf áminning um það kerfi sem er við lýði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert