Berlusconi Evrópu til skammar

Berlusconi og Davíð á Þingvöllum fyrir réttum sjö árum.
Berlusconi og Davíð á Þingvöllum fyrir réttum sjö árum. mbl.is/RAX

Erkki Tuomioja, fyrrverandi utanríkisráðherra Finnlands, gagnrýnir Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, harðlega á bloggsíðu sinni í dag og segir að hann sé allri Evrópu til skammar.

„Það er hægt að leiða hjá sér ósmekkleg ummæli forsætisráðherrans um  matarsmekk og menningu í öðrum ríkjum en karlrembuleg framkoma hans og talsmáti myndi í öðrum siðmenntuðum ríkjum verða til þess, að honum yrði bolað frá embætti," segir Tuomioja, að því er kemur fram á fréttavef blaðsins Helsingin Sanomat.

Finnar eru enn bálreiðir út í Berlusconi fyrir að láta þau ummæli falla, í heimsókn hans til borgarstjóra Rómar í síðustu viku, að þar í borg væru kirkjur mikilfenglegar og merkilegri en 18. aldar timburkirkja, sem hann hefði skoðað í Finnlandi. Berlusconi sagðist hafa verið vakinn snemma morguns og síðan þurft að ferðast í þrjár klukkustundir að kirkjunni. „Hérna hefðum við látið ýtur jafna svona kirkjur við jörðu," sagði Berlusconi og  teiknaði X með fingrunum framan við sjónvarpsvélarnar.  

Finnar hafa reynt að átta sig á hvaða kirkju Berlusconi hafi átt við. Hann hefur einu sinni komið í heimsókn til Finnlands, árið 1999, áður en hann varð forsætisráðherra, en ekki er vitað til að hann hafi þá skoðað neinar kirkjur, hvað þá timburkirkjur frá 18. öld. 

Blaðið hefur í dag eftir ítalska blaðamanninum Gianlucca Luzzi, sem starfar hjá ítalska blaðinu La Repubblica, að sennilega hafi Berlusconi verið að vísa til kirkju á Íslandi, Þingvallakirkju, sem hann sá þegar hann heimsótti Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, á Þingvöllum í maí árið 2002. Berlusconi skoðaði þá einnig Gullfossi og Geysi.

Luzzi hefur fylgt Berlusconi eftir á ferðum hans um heiminn og segist telja, að forsætisráðherrann hafi hreinlega ruglað saman Norðurlöndunum tveimur.  

Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem Berlusconi móðgar Finna. Árið 2001 lýsti hann því yfir, að ekki væri hægt að hafa höfuðstöðvar nýrrar matvælastofnunar Evrópusambandsins í landi þar sem þjóðin vissi ekki einu sinni hvað Parmaskinka væri.

Og þegar þessi matvælastofnun var tekin formlega í notkun - í Parma á Ítalíu - gortaði Berlusconi af því að hafa beitt glaumgosatækni á Törju Halonen, forseta Finnlands, þegar fékk Finna til að leyfa Ítölum að hýsa stofnunina.

Helsingin Sanomat tekur fram, að deila Finna og Ítala um matvælastofnunina hafi staðið yfir árum saman á vettvangi forsætisráðherra landanna en Halonen hafi ekki komið að því máli.     

Helsingin Sanomat

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert