Joly snuprar Sarkozy og Berlusconi

Eva Joly
Eva Joly Ómar Óskarsson

Silvio Berlusconi er hættulegur og Nicolas Sarkozy hefur sýnt einræðistilburði. Þannig lýsir fransk-norski rannsóknardómarinn Eva Joly forsætisráðherra Ítalíu og forseta Frakklands í viðtali sem birt er á fréttavef Berlingske Tidende.

Eva Joly er í framboði í Frakklandi fyrir Græningja í kosningum til Evrópuþingsins og Berlingske Tidende segir ástæðuna þá að hún vilji berjast þar gegn einræðistilburðum Berlusconis og Sarkozys sem hafi báðir lagt til atlögu við dómstólana og reynt að þagga niður í fjölmiðlum.

„Ég tel að ég eigi einskis annars úrkosti. Mér finnst að einhver þurfi að segja þetta, einhver þurfi að berjast fyrir því að evrópska dómskerfið batni,“ segir Joly og bætir við að þróunin á Ítalíu og í Frakklandi sé hættuleg fyrir lýðræðið og réttarkerfið í Evrópu.

Eva Joly skírskotar meðal annars til deilna Berlusconis og ítalskra saksóknara og einnig til þess að Sarkozy hefur lýst yfir því að hann hyggist leggja niður um 600 embætti rannsóknardómara fyrir lok ársins.

Eva Joly er nú ráðgjafi embættis sérstaks saksóknara við rannsókn á mögulegum lögbrotum vegna bankahrunsins hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert