Harðneitar að hætta

Silvio Berlusconi
Silvio Berlusconi Reuters

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, segir afsögn ekki hvarfla að sér en orðrómur um samband hans við 18 ára gamla fyrirsætu hefur valdið fjaðrafoki á Ítalíu. „Það hefur ekki hvarflað að mér að hætta, Ítalir hafa falið mér ábyrgð og ég verða að leiða stjórnina áfram,“ segir Berlusconi.

Berlusconi hafnar einnig möguleikanum á kosningum og segir slíkar hugmyndir pólitíska draumóra. Forsætisráðherrann, sem er 72ja ára, hefur verið miðdepill fjölmiðlafárs vegna sagna af sambandi hans við unglinginn Noemi Letizia, en hún kemur við sögu í skilnaðardrama Silvios og eiginkonu hans. Berlusconi hefur sagst hafa hitt Letiziu í gegnum foreldra hennar sem hann hafi þekkt í mörg ár. Fyrrverandi kærasti stúlkunnar segir þó að Berlusconi hafi haft beint samband við hana, og í fyrsta sinn á síðasta ári.

Berlusconi, sem sjálfur er eigandi fjölmiðla í landinu, segist skotmark erlendra fjölmiðla og fjölmiðlakóngsins Rupert Murdochs, sem einnig á fjölmiðla á Ítalíu.

Ítalska stjórnarandstaðan hefur ekki farið fram á afsögn Berlusconis en hefur óskað eftir nánari útskýringum hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert