Slapp ómeiddur frá stjórnlausum bíl

Fjögurra ára gamall tyrkneskur drengur virðist ekki vera feigur en hann slapp ómeiddur eftir að stjórnlaus bíll lenti á honum á fullri ferð. Tyrkneskar sjónvarpsstöðvar sýndu myndir af atvikinu, sem náðust á eftirlitsmyndavélar.

Drengurinn, Muhammet Dirlik, sést á myndunum kastast til þegar bíllinn lendir á honum. Drengurinn stendur síðan upp og gengur í burtu eins og ekkert hafi í skorist. Annar drengur sést forða sér á hlaupum undan bílnum. 

Ökumaður bílsins sagðist á eftir hafa misst stjórn á bílnum þegar hann sveigði til að forðast að aka yfir hvolp á götunni. Bíllinn lenti á búðarglugga og endaði hálfur inni í versluninni.  

Muhammet sagði við blaðamenn, að hann hefði verið á gangstéttinni þegar bíllinn lenti á honum. Hann sagðist ekkert hafa meitt sig. Faðir drengsins sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því hvað gerst hafði fyrr en daginn eftir þegar hann sá sjónvarpsmyndirnar.

„Við gerðum okkur grein fyrir því að það hefði orðið óhapp þegar við heyrðum hávaðann. Ég sá son minn koma grátandi og hélt að honum hefði orðið svona mikið um. Við gerðum okkur ekki grein fyrir því að hann hafði orðið fyrir bílnum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert