Kínverjar segja 12 hafa verið skotna

Kínverkir öryggissveitarmenn standa vörð við Dong Kuruk moskuna í Urumqi
Kínverkir öryggissveitarmenn standa vörð við Dong Kuruk moskuna í Urumqi Reuters

Yfirvöld í Kína viðurkenndu í dag að öryggissveitarmenn hefði skotið 12 manns til bana er til átaka kom í borginni Urumqi í Xianjiang-héraði í norðvestuhluta landsins fyrr í þessum mánuði. Þá segja þau tölu látinna í átökunum í borginni nú komna upp í 197. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Nur Bekri, fyrsti ráðherra héraðsins, segir 12 „glæpamenn" hafa verið skotna eftir að þeir hunsuðu tilmæli og viðvörunarskot öryggissveitarmanna. Segir hann þrjá þeirra hafa látist samstundis en hina eftir að þeir voru fluttir á sjúkrahús.

„Við hefðum aldrei getað trúað því að glæpamennirnir væru þetta grimmir og ómannúðlegir," sagði Bekri. Þá sagði hann „hrottana" hafa notað stálbita, steina og múrsteina gegn óbreyttum borgurum.

Hann greindi ekki frá uppruna þeirra sem öryggissveitarmenn felldu en mikil spenna hefur verið á milli fólks af ólíkum uppruna í héraðinu frá því átök brutust þar út á milli Uyghur-manna og Han-Kínverja.

Kínverjar segja Uyghur-menn, sem eru tæplega helmingur íbúa héraðsins, hafa gengið berserksgang og ráðist á saklausa Han Kínverja en Uyghur-menn segja öryggissveitarmenn hafa ráðist gegn Uyghur-mönnum af mikilli hörku og að mun fleiri úr þeirra röðum hafi látið lífið en yfirvöld viðurkenni.

Uyghur-menn, sem eru múslímar, eru fjölmennasti í hópur íbúa Xinjiang en þar búa um 20 milljónir manna af mismunandi uppruna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert