Fangelsi lokað í Íran

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, fer með embættiseið sinn í viðurvist …
Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, fer með embættiseið sinn í viðurvist Ajatollah Ali Khamenei. Reuters

Yfirvöld í Íran hafa lokað Kahrizak-fangelsinu þar sem staðhæft er að námsmenn, sem handteknir voru í júní, hafi verið beittir ofbeldi. Þá er talið að fangelsisstjórinn hafi verið handtekinn. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

„Einn yfirmaður öryggismála og ein fangavörður í fangelsi þar sem tilkynnt hefur verið um brot á reglum hafa verið reknir og handteknir,” segir Esmaeel Ahmadi Moghadam, yfirmaður írönsku öryggissveitanna, í viðtali við fréttastofu íranskra námsmanna.

„Ég hyggst axla mína ábyrgð en frá upphafi hef ég sagt að ekki ætti að halda námsmönnum í Kahrizak eða með glæpamönnum. Þeir voru eftir sem áður sendir til Kahrizak samkvæmt fyrirmælum dómsmálayfirvalda, þar sem skortur var á fangelsisplássum. Mér fannst það ekki viðeigandi,” segir hann.

Moghadam hefur þegar verið gagnrýndur fyrir ummælin og sagður einmitt vera að skorast undan ábyrgð með þeim. Er á það bent að hann hafi daglega fengið skýrslur um þróun mála sem tengdust motmælunum og aðgerðum gegn mótmælendum. 

Ajatollah Ali Khamenei, æðstiklerkur Írans, er sagður hafa gefið fyrirmæli um lokun fangelsisins en staðhæft er að nokkrir ungir fangar hafi látið lífið í Kahrizak fangelsinu frá því í júní.

Moghadam segir að rekja megi dauðsföllin í fangelsinu til veikinda og veirusýkinga. Þó sé vitað til þess að þrír einstaklingar hafi að eigin frumkvæði beitt unga fanga hörðum refsiaðgerðum í fangelsinu.

Einnig hefur verið staðhæft að bæði kvenkyns og karlkyns föngum í Íran hafi verið nauðgað eftir að þeir voru handteknir vegna þátttöku í óeirðum í kjölfar umdeildra kosningaúrslita í landinu í júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert