Nasistar ráku vændishús í fangabúðunum

Arbeit Macht Frei, hin alræmda setning við eina af útrýmingarbúðum …
Arbeit Macht Frei, hin alræmda setning við eina af útrýmingarbúðum nasista.

Þýskir nasistar komust að þeirri niðurstöðu, að fangar í fangabúðum myndu afkasta meiru í þrælkunarvinnu ef þeim væri lofað kynlífi. Þess vegna voru kvenkyns fangar í fangabúðunum neyddir til að þjónusta karlkyns fanga.

Þetta kemur fram í nýrri bók, Das KZ Bordell, eftir sagnfræðinginn Robert Sommer, sem kemur út í vikunni. Mun þetta vera í fyrsta skipti, sem fjallað er með skipulegum hætti um þennan þátt fangabúðastefnu nasista í síðari heimsstyrjöldinni.  

Í bókinni, sem verður afhent ríkisþinginu í Berlín á morgun, er fjallað um aðdraganda, uppbyggingu og áhrif hinna svonefndu Sonderbauten, sérstakra bygginga sem reistar voru í fangabúðunum að undirlagi SS sveita Henrichs Himmlers. 

Sommer segir í samtali við Reutersfréttastofuna, að fangabúðavændishúsin hafi lengi legið í þagnargildi. Konurnar, sem neyddar voru til að starfa þar, hefðu ekki viljað tala um málið og þetta hefði heldur ekki passað inn í þá mynd, sem sagnfræðingar eftirstríðsáranna vildu draga upp af fangabúðunum sem táknmynd þjáningar. 

Vændishús í 10 fangabúðum 

SS byrjaði árið 1942 að opna þessi vændishús, það fyrsta í fangabúðunum í Mauthausen í Austurríki. Það stærsta var í Auschwitz í Póllandi. Síðasta vændishúsið var opnað árið 1945, sama ár og stríðinu lauk og alls voru þau 10. 

Þessi þáttur fangabúðasögunnar tengist ekki helför gyðinga. Gyðingakonur voru ekki látnar starfa í vændishúsunum og gyðingar í hópi fanga fengu ekki að heimsækja húsin. Það sama gilti um sovéska stríðsfanga.

Sommer, sem er 35 ára Þjóðverji, fæddur og uppalinn í Austur-Þýskalandi, áætlar að alls hafi um 200 konur verið neyddar til að vinna í vændishúsunum. Upphaflega var þeim lofað að líf þeirra yrði bærilegra en annarra fanga og að þeim yrði sleppt eftir hálft ár. Þessi loforð hafi hins vegar aldrei verið efnd. Þegar á leið völdu SS foringjar síðan einfaldlega konur og skipuðu þeim að vinna í húsunum.   

Tugir þúsunda stríðsfanga, pólitískra fanga og annarra sem nasistar töldu óæskilega, þar á meðal sígaunar og samkynhneigðir, voru í fangabúðum nasista ásamt milljónum gyðinga, sem létu lífið í helförinni.  

Vildu auka framleiðnina 

Sommer segir, að hugmyndin á bakvið vændishúsin hafi verið að auka framleiðni fanga í þrælkunarvinnu. Þetta hafi þó ekki gengið eftir því í raun hafi fáir fangar verið í nægilega líkamlega góðu ástandi til að nýta sér vændishúsin. 

Vændiskonurnar, sem flestar voru á þrítugsaldri, fengu betri mat og meðferð en aðrir kvenfangar.  Á móti kom, að þær urðu að veita völdum föngum kynlífsþjónustu á hverju kvöldi frá klukkan 20 til 22 og einnig síðdegis á sunnudögum. 

Nasistarnir óttuðust, að kynsjúkdómar kynnu að berast út meðal fangana og draga úr vinnugetu þeirra. Þess vegna voru konurnar sendar reglulega á sjúkradeild fangabúðanna þar sem þær fengu kalksprautur og þær baðaðar með sótthreinsandi legi. Einnig voru þær látnar liggja undir sólarlömpum. 

Hins vegar hirtu fangaverðirnir ekki um að útvega konunum getnaðarvarnir. Margar konurnar höfðu þegar verið gerðar ófrjóar með skurðaðgerð þegar þær voru handteknar eða orðið ófrjóar af öðrum ástæðum meðan á fangabúðavistinni stóð.

Ný vídd hryllingsins 

„Í vændishúsunum birtist önnur vídd hryllingsins, sem tengist nasistum," segir Sommer við Reuters. „Þar voru fórnarlömb nasistananna  látin fremja brot gegn konunum." Hann segir, að eftir stríðið hafi konurnar verið forsmáðar þrátt fyrir þær þjáningar, sem þær höfðu liðið. 

Strangt eftirlit var með vændishúsunum og þeir sem fengu þar þjónustu þurftu að greiða fasta upphæð, 2 ríkismörk en fyrir þá upphæð var einnig hægt að kaupa sígarettupakka. Sommer segir, að nasistar hafi einnig sett kynþáttareglur og Þjóðverjar, sem vildu fara í vændishús, fengu aðeins að hitta þýskar konur. Slavneskir karlfangar fengu aðeins að hitta slavneskar konur.

Aðeins þeir fangar, sem nutu mestu fríðindanna, t.d. fangar sem skipaður voru eftirlitsmenn, fengu að nota vændishúsin oft. Sommer áætlar að aðeins um 1% af öllum karlföngum í fangabúðunum hafi heimsótt vændishúsin. Sommer áætlar hins vegar að hver kona hafi verið neydd til að þjónusta á milli 300 og 500 samfanga sína. 

15 mínútur

Eftir að SS hafði gefið út vændishúsaleyfi var fanganum úthlutuð kona og hann gekkst síðan undir læknisskoðun. Ef nafn hans var lesið upp á kvöldin var honum síðan fylgt inn í bygginguna og læknir smurði síðan sótthreinsandi kremi á kynfæri hans. 

SS-menn fylgdust jafnvel með kynmökunum en til eru skýrslur þar sem slíkt er skráð. Gægjugöt voru á herbergjunum þar sem fangaverðir fylgdust með. Kynmökin máttu aðeins taka 15 mínútur og aðeins mátti nota trúboðastellinguna. 

9 ára rannsóknarvinna

Rannsóknarvinna Somers tók 9 ár. Til að afla gagna fyrir bókina heimsótti Sommer allar fangabúðirnar 10, þar á meðal Dachau og Buchenwald, og ræddi við 30 fyrrum fanga, þar á meðal karlmenn sem notuðu vændishúsin.  Hann segir, að flestar kvennanna, sem voru látnar starfa þar, séu látnar og þær sem enn eru á lífi vilji lítið tala um málið. 

„Við vitum ekki hvort þær fengu einhverjar bætur vegna þess sem þær máttu þola," segir Sommer. „Það er mikilvægt að þessar konur fái á ný eitthvað af þeirri virðingu, sem þær voru sviptar."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert