Ísskápar sem springa í loft upp

Ljótt var um að litast í eldhúsinu á Kvisthaganum eftir …
Ljótt var um að litast í eldhúsinu á Kvisthaganum eftir að ísskápurinn sprakk. Mbl.is/Árni Sæberg

Ísskápur sprakk fyrirvaralaust á bresku heimili í gær og skildi eldhúsið eftir í rjúkandi rústum. Hið sama gerðist með íslenskan ísskáp fyrir ári síðan. Engin skýring hefur fundist á sprengingunum.

Hin breska Kathy Cullingworth vaknaði í morgunsárið við mikla sprengingu og var hennar fyrsta hugsun sú að sprengja hefði sprungið. Þegar hún flýtti sér niður á jarðhæð til þess að athuga málið komst hún hins vegar að því að ísskápurinn hennar hafði sprungið í loft upp. Hurðirnar höfðu sprungið og sá svo mikið á eldhúsinu að tjónið nemur þúsundum punda. Ofnar losnuðu frá veggjum og sprungur eru í lofti, veggjum og gólfi. Skápar eyðilögðust og innihald þeirra og ísskápsins þeyttist út um allt eldhús.

Engin útskýring hefur fundist á sprengingunni í ísskápnum. Slökkviliðsmaður sem kom á staðinn sagðist aldrei á sinni 30 ára starfsævi hafa neitt þessu líkt.

Það hefur hins vegar heimilisfólkið að Kvisthaga 15 í Reykjavík en þar sprakk ísskápur með svipuðum afleiðingum þann 26. apríl í fyrra. Ragnar Eyþórsson eigandi ísskápsins, sagði að því tilefni við mbl að ísskápurinn hefði hreinlega tæst í sundur. „Hurðin kastaðist af ísskápnum og hentist í rúðuna, brýtur hana í mola. Höggbylgjan af sprengingunni sprengdi líka vegginn þar sem innréttingarnar eru hreinlega að losna af og veggurinn er líka sprunginn inni á baðherbergi,“ sagði Ragnar

Lögreglan kom og tók skýrslu og maður frá tryggingafélagi Ragnars leit á rústirnar og sagðist ekki hafa séð annað eins á 20 ára ferli.

Ragnar sagði að enginn eldur hafi komið upp og að í skápnum hafi einungis verið hefðbundinn heimilismatur. Hið sama var uppi á teningnum hjá bresku fjölskyldunni, í skápnum var einungis hefðbundin matur.

Engar skýringar fundust heldur þegar íslenski skápurinn sprakk en Ragnar sagðist hafa fundið gaslykt eftir sprenginguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert