Tölvuþrjótar dreifa svínaflensuvírus

Tölvuþrjótar nýta sér nú ótta manna við svínaflensu eða H1N1 inflúensu og dreifa skæðum tölvuvírus með pósti þar sem fjallað er um inflúensufaraldurinn og uppruna hans.

Í viðhengi með pósti sem tölvuþrjótarnir senda, er skjal þar sem fullyrt er að H1N1 vírusinn hafi verið búinn til af lyfjafyrirtækjum sem séð hafi fram á gríðarlegan hagnað þegar flensan yrði að heimsfaraldri.

Upplýsingarnar vekja forvitni margra en um leið og viðhengið er opnað, hleðst skæður vírus inn á harðan disk tölvunnar. Vírusinn er hannaður til að sækja persónulegar upplýsingar, s.s. bankaupplýsingar og annað sem hægt er að nýta í fjárhagslegum tilgangi.

Skeyti frá tölvuþrjótum sem innihalda slíka vírusa flæða nú um netið og er tölvunotendum enn og aftur bent á að opna ekki viðhengi nema vera vissir um uppruna þess.

Margaret Chan, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO, vísar samsæriskenningum á bug og segir óhugsandi að lyfjarisar standi að baki H1N1.

Samkvæmt upplýsingum WHO hafa 3.205 látist af völdum inflúensunnar frá því hún kom fyrst upp í Mexíkó í apríl sl. WHO hefur áætlað að allt að tveir milljarðar manna eigi eftir að smitast af veirunni á næstu tveimur árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert