Handtekinn fyrir að kyssa dóttur sína

Lögregla í Brasilíu hefur ákveðið að sleppa úr haldi ítölskum ferðamanni, sem handtekinn var í borginni Fortaleza í Brasilíu í byrjun september eftir að hann kyssti átta ára gamla dóttur sína á almannafæri.

Maðurinn, sem er 48 ára að aldri, er nú á leið með flugvél til Ítalíu. „Ég er þreyttur en það er í lagi. Ég er á leið heim, svo er Guði fyrir að þakka," sagði hann í samtali við O Globo fréttavefinn. 

Maðurinn var ásamt brasilískri eiginkonu sinni og 8 ára dóttur þeirra við hótelsundlaug. Öldruð brasilísk hjón kærðu manninn til lögreglu og sögðust hafa séð hann kyssa og snerta dóttur sína með óviðurkvæmilegum hætti.  Eiginkona mannsins bar hins vegar að ekkert óeðlilegt hefði gerst.

Brasilískir embættismenn ákváðu að sleppa manninum úr haldi með því skilyrði, að hann hefði vikulega samband við brasilísk stjórnvöld og kæmi til Brasilíu ef mál hans færi fyrir dóm.

Ströng lög voru sett í ágúst, sem ætlað er að berjast gegn kynferðislegum árásum á börn. Viðurlög eru allt að 15 ára fangelsi.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert