Fagnaði falli kommúnismans

Benedikt 16. páfi fagnaði falli kommúnismans í Austur-Evrópu þegar hann kom til Prag í Tékkland í dag. Páfi hóf í dag þriggja daga heimsókn sína til Austur-Evrópu. Þetta er önnur heimsókn hans til Austur-Evrópu.

Koma páfans, sem er leiðtogi rómversk-kaþólskra, kom til Tékklands skömmu áður en Tékkar minnast 20 ára afmælis Flauelisbyltingarinnar. Það var friðsöm bylting sem steypti kommúnistum af stóli í fyrrum Tékkóslóvakíu árið 1989.

„Ég tek undir þakklæti ykkar og nágranna ykkar fyrir að losna undan þessu kúgandi stjórnarfari,“ sagði Benedikt páfi í ræðu sem hann hélt á flugvellinum við komu sína. Síðar í dag átti páfinn stuttan fund með Vaclav Havel, fyrrverandi forseta Tékklands og hetju Flauelisbyltingarinnar 1989.

Vaclav Klaus, forseti Tékklands, bauð páfann velkominn til landsins. Mannfjöldinn fagnaði páfa innilega þegar hann hóf ræðu sína á skýrri tékknesku áður en hann skipti yfir í ensku.

„Hafi fall Berlínarmúrsins valdið vatnaskilum í veraldarsögunni þá skipti það enn meira máli fyrir löndin í Mið- og Austur-Evrópu og gerði þeim kleift að gegna réttmætri stöðu sinni sem sjálfstæðir þátttakendur í hljómkviðu þjóðanna,“ sagði páfinn.

Eftir athöfnina á flugvellinum hélt páfinn til kirkju í Prag og var það fyrsti viðkomustaður hans. Í kvöld hitti hann stjórnmálamenn, vísindamenn og klerka í Prag-kastala. Þar sagði páfinn m.a. að tveimur áratugum eftir að kommúnismanum var kollsteypt „haldi lækningin og enduruppbyggingin áfram innan... evrópskrar sameiningar og í sífellt hnattvæddari heimi.“

Páfinn varpaði einnig fram spurningum um nýfengið frelsi þjóðanna í Austur-Evrópu og því hve frelsið er óaðskiljanlegt frá sannleikanum sem er „viðmiðun frelsisins.“

Mjög var þrengt að starfi kirkjunnar á þeim 40 árum sem kommúnistar réðu ríkjum í Tékkóslóvakíu. Einungis þriðjungur tékknesku þjóðarinnar, sem telur rúmlega 10 milljónir manna, kveðst vera trúaður. Í skoðanakönnun árið 2001 sögðust sex af hverjum tíu Tékkum vera trúlausir.

Vaclav Klaus, forseti Tékklands (t.h.) með Benedikt 16. páfa í …
Vaclav Klaus, forseti Tékklands (t.h.) með Benedikt 16. páfa í Prag kastala í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert