Stjórnarskipti líkleg í Grikklandi

Costas Karamanlis, forsætisráðherra Grikklands, er líklega að missa völdin í …
Costas Karamanlis, forsætisráðherra Grikklands, er líklega að missa völdin í þingkosningunum í dag. AP

Þingkosningar eru í Grikklandi í dag, en kosningabaráttan hefur verið stutt. Flest þykir benda til þess að íhaldsmenn missi valdatökin og sósíalistar komist að kjötkötlunum. Sagt er frá þessu á fréttavef BBC.

Kannanir sýna að sósíalistaflokkurinn, Samhelleníska sósíalistahreyfingin (Pasok), sem George Papandreou leiðir, hefur talsverða forystu á Nýja lýðræðisflokkinn, sem forsætisráðherrann Costas Karamanlis er í forsvari fyrir. Nú er aðeins rúmlega helmingur liðinn af kjörtímabilinu, en Karamanlis, sem boðaði til kosninganna, hefur sagst vilja endurnýjað umboð til að takast á við efnahagsvanda landsins. Það hefur hins vegar sett strik í reikninginn að stjórn hans hefur lent í nokkrum spillingar- og hneykslismálum.

Andstæðingar forsætisráðherrans segja að honum hafi mistekist að standa við loforð sín um að hreinsa til í stjórnkerfinu og nútímavæða Grikkland. Papandreou keyrir á þá stefnu að gera atvinnulífið grænna og að fá erlenda sérfræðinga til þess að hjálpa Grikklandi að sigrast á erfiðleikunum.

Papandreou þarf að minnsta kosti 43% atkvæða á landsvísu til þess að geta verið viss um að ná meirihluta í þinginu, þar sem 300 þingmenn fá sæti. Fjörutíu sætum er sjálfkrafa úthlutað til þess flokks sem fær mest fylgi, en afganginum 260 sætum, er úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.
Ef enginn einn flokkur fær meirihluta, hefur forseti landsins, Karolos Papoulias, vald til þess að veita leiðtoga stærsta flokksins stjórnarmyndunarumboð. Gangi slíkar viðræður um sambandsstjórn ekki eftir verður boðað aftur til kosninga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert