Wal-Mart hefur sölu á líkkistum

Wal-Mart er stærsta smásölukeðja heims.
Wal-Mart er stærsta smásölukeðja heims. AP

Bandaríska verslunarkeðjan Wal-Mart, sem er stærsta fyrirtæki í smásöluverslun í heiminum, mun sinna viðskiptavinum sínum fram yfir dauðan, því nú býður fyrirtækið upp á líkkistur.

Verðið er á bilinu 112.000 kr. til 360.000 kr. Þær ódýrari eru úr stáli en sú dýrasta úr bronsi.

Wal-Mart býður viðskiptavinum sínum upp á að dreifa greiðslunum yfir eitt ár vaxtalaust. Kisturnar eru sendar til viðskiptavinanna innan tveggja sólarhringa.

Ljóst er að Wal-Mart býður upp á þjónustu frá vöggu til grafar, en fyrirtækið selur allt á milli himins og jarðar. T.d. barnafatnað og trúlofunarhringa.

Talsmaður keðjunnar segir að takmarkað framboð verði á kistunum til að byrja með. Reynt verður að meta viðbrögð fólks áður en tekin verði ákvörðun um framhaldið.

Fréttaskýrendur segja að nýjasta útspil Wal-Mart muni koma illa við mörg fyrirtæki sem bjóða upp á útfararþjónustu, þar sem smásölurisinn geti boðið upp á lægri verð.

Sumir hafa þó ekki miklar áhyggjur eða eru grafalvarlegir vegna málsins. Þeir benda á að Wal-Mart muni aldrei bjóða upp á þá persónulegu þjónustu sem sérhæfðar útfararþjónustur geri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert