Hafa náð valdi á olíueldi

Sérfræðingar hafa náð valdi á eldi, sem logað hefur í olíuborpalli undan strönd Ástralíu síðustu daga. Tókst sérfræðingunum að stöðva olíuleka frá pallinum en hráolía hefur lekið í sjóinn frá pallinum undanfarnar 10 vikur.

Að sögn fyrirtækisins PTTEP Australasia tókst að loka borholunni, sem lak, með því að fylla hana af leðju. Við það slokknaði eldurinn að mestu leyti en enn mun þó loga í hluta af pallinum. 

Eldurinn kviknaði á laugardag þegar verið var að reyna að stöðva olíulekann frá pallinum. Þúsundir lítra af olíu hafa lekið í Tímorhaf frá því olíulekans varð vart 21. ágúst. 

Umhverfisverndarsinnar hafa lýst miklum áhyggjum af því að olía frá pallinum mengi haf og strendur á norðvesturhluta Ástralíu en þar eru hvalir og höfrungar algengir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert