Tilfinningaþrungin athöfn

Margir helstu þjóðarleiðtogar heimsins tóku þátt í tilfinningaþrunginni minningarathöfn í Berlín sem um 100 þúsund manns sótti. Tilefnið var að í dag eru 20 ár liðin frá því að Berlínarmúrinn féll. Leiðtogarnir kölluðu eftir nýrri sókn gegn þeim öflum sem ógna heimsfriði.

Angela Merkel kanslari var umkringd núverandi og fyrrverandi leiðtogum og frægðarmönnum. Þau minntust þess þegar ríki kommúnista riðuðu til falls í Evrópu og Austur-Þýskaland opnaði loks víggirt landamæri sín 9. nóvember 1989. 

Merkel, sem ólst upp í Austur-Þýskalandi kommúnismans, gekk fremst í flokki þjóðarleiðtoga í gegnum Brandenburgarhliðið. Við hlið hennar voru Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands, Nicolas Sarkozy forseti Frakklands, Dmitri Medvedev forseti Rússlands, Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fulltrúar frá Evrópusambandinu.

Mikill mannfjöldi hafði safnast saman þrátt fyrir rigningarúða í Berlín. Mikhail Gorbasjev fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna og Lech Walesa, fyrrum forseti Póllands, voru einnig við Brandenburgarhliðið sem nú er tákn sameinaðs Þýskalands.

„Þetta er ekki einungis hátíðisdagur fyrir Þjóðverja,“ sagði Angela Merkel. „Þetta er hátíðisdagur allrar Evrópu.“

Barack Obama forseti Bandaríkjanna hélt óvænt sjónvarpsávarp sem sýnt var við hátíðarhöldin. Hann sagði að kjarkur íbúa Austur-Þýskalands sem börðust við kúgun stjórnvalda hafi veitt sér innblástur. 

Dmitri Medvedev forseti Rússlands sagði að endalok Kalda stríðsins réttlættu ekki heimsyfirráð neinnar einnar þjóðar, og þótti hann sneiða þar að Bandaríkjunum.

Hljómsveit Ríkisóperunnar í Berlín lék kafla úr verkum Bethovens og Wagners. Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar þúsund risastórir dóminókubbar úr frauðplasti, sem raðað hafði verið á 1,2 km kafla þar sem múrinn stóð og flóttamenn voru skotnir, féllu einn af öðrum. 

Gordon Brown, forsætisráðhera Bretlands, Nicolas Sarkozy forseti Frakklands, Angela Merkel …
Gordon Brown, forsætisráðhera Bretlands, Nicolas Sarkozy forseti Frakklands, Angela Merkel kanslari Þýskalands, Dmitry Medvedev forseti Rússlands og Horst Köhler forseti Þýskalands ganga í gegnum Brandenburgarhliðið tll tákns um fall Berlínarmúrsins. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert