Mistök og leynd í Íraksinnrás

Tony Blair umkringdur breskum hermönnum í Basra í Írak fyrir …
Tony Blair umkringdur breskum hermönnum í Basra í Írak fyrir nokkrum árum.

Breska blaðið Sunday Telegraph segist hafa komist yfir leynilegar skýrslur og viðtöl við breska herforingja, sem sýni fram á mistök í aðgerðum breska hersins í Írak og að bresk stjórnvöld hafi sveipað áform sín og ákvarðanir leyndarhjúp.

Blaðið segir skýrslurnar sýna, að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, hafi árið 2002 sagt bæði þingmönnum og breskum almenningi ósatt þegar hann fullyrti að markmið breskra stjórnvalda með aðgerðum gegn Írak væri að afvopna Íraka en ekki koma þar á stjórnarskiptum. Þá væru engin áform um hernaðaraðgerðir gegn Írökum. Í raun hafi breski herinn byrjað að undirbúa innrás í Írak þegar í febrúar 2002 með það að markmiði að steypa Saddam Hussein, forseta landsins, af stóli. 

Þar sem nauðsynlegt þótti, að halda þessum áformum leyndum fyrir breska þinginu og embættismönnum utan afar litlum hópi þeirra, var innrásin, þegar hún var gerð í apríl 2003, afar illa undirbúin. Breskar hersveitir skorti bæði samhæfingu og búnað sem olli því að þær voru í mikilli hættu. Þá var afleiðingin sú, að afdrifarík mistök voru gerð í Írak eftir stríðið.

Breskar hersveitir voru svo illa búnar, að sumir hermenn fengu aðeins fimm kúlur til afnota áður en hernaðaraðgerðirnar í Írak hófust. Aðrir voru sendir áleiðis til Íraks með venjulegum farþegaflugvélum og þeir þurftu að taka búnað sinn með sér sem almennan farangur. Fyrir kom, að vopn hermanna voru gerð upptæk í öryggishliðum á flugvöllum.

Herforingjar sögðu, að fjarskiptakerfi hersins hefði átt það til að detta út á hádegi vegna gríðarlegs lofthita í Írak. Einn herforingi sagði, að skipulag birgðaflutninga hefði verið í algerum lamasessi. „Ég veit fyrir víst, að heill gámur fullur af skíðum stóð á eyðimörkinni," sagði hann.

Sunday Telegraph segir, að skipulagning breska hersins hafi ekki náð lengra en að ná Bagdad, höfuðborg Íraks. Eftir að það markmið náðist datt botninn úr aðgerðunum um tíma og það nýttu uppreisnarmenn í Írak sér til fulls. 

Gert er ráð fyrir að rannsóknarnefnd á vegum breska þingsins hefji í næstu viku störf við rannsókn á þætti breska hersins og þarlendra stjórnvalda á stríðinu í Írak. 

Grein Sunday Telegraph

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert