Danir eiga von á a.m.k. 100 leiðtogum

Reuters

Að minnsta kosti 100 þjóðarleiðtogar heims hafa staðfest komu sína á fund Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmálin í Kaupmannahöfn sem hefst á mánudaginn í næstu viku. Þetta er haft eftir dönskum embættismanni.

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hafði alls boðið 191 leiðtogum heims á tvo síðustu daga fundarins, en fundurinn hefst 7. desember og lýkur 18. desember. Vonir manna standa til þess að hægt verði að ná árangursríkri niðurstöðu, á lokadögunum tveimur, sem taki við þegar Kýótó-bókunin rennur út árið 2012.

Dönsk stjórnvöld hafa ekki viljað gefa út formlegan lista með nöfnum þeirra leiðtoga sem væntanlegir eru til Kaupmannahafnar.

Vitað er að meðal þeirra sem þegar hafa staðfest komu sína eru Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands, Stephen Harper forsætisráðherra Kaanda, Wen Jiabao forsætisráðherra Kína, Nicolas Sarkozy forseti Frakklands, Angela Merkel Þýskalandskanslari, Luiz Inacio Lula da Silva forseti Brasilíu, Yukio Hatoyama forsætisráðherra Japan, Susilo Bambang forseti Indónesíu og Kevin Rudd forsætisráðherra Ástralíu.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hyggst ávarpa fundinn miðvikudaginn 9. desember áður en leiðtogar heims koma til borgarinnar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert