Fjölmiðlafólk kvartar undan framferði lögreglunnar

Lögreglan í Kaupmannahöfn handtók tæplega þúsund manns í gær og …
Lögreglan í Kaupmannahöfn handtók tæplega þúsund manns í gær og þurftu margir mótmælendanna að bíða klukkustundum saman á köldu malbikinu. Reuters

Fjölmiðlafólk að störfum í Kaupmannahöfn kvartar undan framkomu lögreglunnar í sinn garð og sakar hana um að reyna að hindra það í að gera mótmælum í borginni skil. Frá þessu er grein á vef danska dagblaðsins Politiken.

„Lögreglumenn beita okkur ónauðsynlegu ofbeldi þegar þeir vísa okkur burt af vettvangi. Þess utan virkar það oftast eins og þeir vilji hreinlega ekki að við séum á svæðinu og reyni að halda okkur í sem mestri fjarlægð,“ segir Mads Nissen, ljósmyndari hjá dagblaðinu B.T.

Nissen segist ítrekað um helgina hafa verið beittur harðræði af lögreglunni undir kringumstæðum þar sem fjölmiðlafólk hafi fullan lagalegan rétt á því að vera til staðar og fylgjast með því sem fram fari. „Það er nánast eins og þeir fái eitthvað út úr því að hrinda okkur frá, eins sjúkt og það nú hljómar.“ 

Yfirmenn lögreglunnar hafa staðfest að framvísi fjölmiðlafólk sérstökum skírteinum blaðamanna þá megi þeir halda til innan við afgirt svæði. Lögreglumenn á vettvangi hafa hins vegar virt þessi tilmæli að vettugi.

„Það er ákveðið ósamræmi. Eina stundina má maður vera þar og þá næstu er manni hent út með harðri hendi," segir Mads Nissen, sem er mjög ósáttur við að lögreglan hafi eyðilagt fyrir sér ljósmyndalinsur í átökunum.

„Maður fær auðveldlega á tilfinningunni að það sé eitthvað sem við fjölmiðlafólk megum ekki sjá, eins og t.d. í gær þegar mótmælendur hreinlega hrundu niður og sátu í eigin þvagi og var skítkalt. En okkur fjölmiðlafólki ber skylda til þess að flytja fréttir af þessu,“ segir Nissen.

Christian Als, ljósmyndari hjá danska dagblaðinu Berlingske Tidende, er jafn hneykslaður á framferði lögreglunnar gagnvart fjölmiðlafólki og Nissen

„Þeir sýndu miklu meira ofbeldi en þörf var á. Og þrátt fyrir að maður færði sig og stæði svo langt frá því sem var að gerast að maður þyrfti að nota aðdráttarlinsu þá reyndu lögreglumenn að labba í vegi fyrir linsuna og hindra að maður gæti tekið myndir,“ segir Als.

„Það er enginn vafi í mínum huga um að þetta hafi verið meðvitað. Ef maður færði sig aðeins til hægri eða vinstri þá færðu þeir sig líka. Í dag bað ég einn lögreglumannanna um að hætta þessu og þá öskraði hann bara á mig að ég ætti að drulla mér í burtu,“ segir Christian Als og tekur fram að óþolandi sé að lögreglan komi fram við fjölmiðlamenn, sem séu aðeins að reyna að sinna vinnunni sinni, eins og þeir séu mótmælendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert