Varpa matarbirgðum yfir Haítí

Bandaríkjaher hefur gripið til þess ráðs að varpa vatns- og matarbirgðum úr herþyrlum til nauðstaddra á Haítí. Í frétt á vefsíðu breska ríkisútvarpsins, BBC, kemur fram að nú þegar hafi 14 þúsund máltíðum og 15 þúsund lítrum af vatni verið varpað úr lofti yfir örugg svæði norðaustan við Port au Prince.

Þessi aðferð til að koma birgðum til fólksins hafði áður verið talin of óörugg, en  bandarísk hermálayfirvöld hugleiða nú að varpa birgðum úr lofti yfir fleiri svæði á Haítí, enda neyðin gífurleg og liggur mikið á að koma mat og vatni til fólksins.

Meira en tvö þúsund bandarískir hermenn bætast í dag við þá þúsund hermenn sem fyrir eru á Haítí, en bandarísk yfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir hversu lengi þau hafa verið að koma Haítíbúum til hjálpar.

Neyðin á Haítí er mikil.
Neyðin á Haítí er mikil. REUTERS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert