Vetrarhörkur í Skandinavíu

Snjóþungt er á Suður-Jótlandi, eins og sést á þessari mynd …
Snjóþungt er á Suður-Jótlandi, eins og sést á þessari mynd Sigursteins Sævarssonar. Sigursteinn Sævarsson

Vetrarveður gerir mönnum lífið leitt á Norðurlöndum og tefur samgöngur. Í morgun snjóaði í Kaupmannahöfn og á Borgundarhólmi. Spáð er uppstyttu á morgun en stórhríð og mikilli ófærð í Danmörku á þriðjudag. Ferjan Color Viking, sem siglir milli hafna í Noregi og Svíþjóð, festist í hafís í Skagerak.

Fréttavefur Berlingske Tidende segir að snjóþykktin á Borgundarhólmi sé 38 sentimetrar og 19 sentimetrar í Kaupmannahöfn. Snjókoman í Kaupmannahöfn er sú mesta á þeim slóðum í vetur og er talin geta tafið umferð. 

Vefur danska útvarpsins segir að búast megi við stórhríð á þriðjudaginn kemur sem geti geisað um allt landið. Haft er eftir veðurfræðingi að þeir sem ráðgeri ferðalög á þriðjudag og miðvikudag ættu að slá þeim á frest. 

Þá segir Jyllands-Posten frá því að hafís sé farinn að tefja siglingar á ferjuleiðum. Þannig þurfti ferja Color Line að gegna hlutverki ísbrjóts  í dag til að komast til hafnar. Ferjan Color Viking lenti í vandræðum vegna hafíss skömmu eftir að hún lagði til hafs frá Sandefjord í Noregi áleiðis til Strömstad í Svíþjóð.

Ferjan sigldi á hægri ferð fyrsta hálftímann en festist þá í ís. Eftir drjúglanga stund tókst að losa ferjuna og braut hún sér leið úr ísnum. Þetta tafði ferjuna um tvo og hálfan tíma. 

Yfirmaður Color Line segir að hann hafi aldrei fyrr kynnst jafnmiklum erfiðleikum vegna hafíss í Skagerak og nú. Hann segir að ferjusiglingum milli Sandefjord og Strömstad með minni ferju hafi verið hætt. Stærri ferjan, Color Viking, sé notuð eins og ísbrjótur til að halda leiðinni opinni. 

Mikið snjóaði í Finnlandi í nótt og veldur snjórinn umferðartöfum í Helsinki að sögn Huvudstatsbladet. Öll snjóruðningstæki borgarinnar unnu að snjóhreinsun í dag.

Ferjan Color Viking þarf að brjóta sér leið milli Sandefjord …
Ferjan Color Viking þarf að brjóta sér leið milli Sandefjord og Strömstad vegna hafíss. Color Line
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert