Brown segist ekki hafa slegið starfsfólk

Gordon Brown.
Gordon Brown. Reuters

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, segist aldrei hafa lagt hendur á starfsfólk sitt en fréttir af nýrri bók, þar sem fullyrt er að Brown hafi tekið æðisköst á forsætisráðherraskrifstofunni skyggðu á upphaf kosningabaráttu forsætisráðherrans, sem hófst af fullum þunga í gær. 

Brown viðurkenndi í viðtali við Channel 4, að hafa stundum látið finna fyrir sér þegar hann lék rúgbí á sínum yngri árum og stundum kastaði hann dagblöðum í gólfið en hann væri yfirleitt reiður sjálfum sér en ekki öðrum.

„Ég vil lýsa því yfir, svo það sé enginn misskilningur á ferðinni: Ég hef aldrei, aldrei slegið til nokkurs manns á ævinni," sagði Brown.

Blaðið Observer birti í gær úrdrátt úr bók eftir blaðamanninn  Andrew Rawnsley þar sem meðal annars er fjallað um hegðun Browns í Downingstræti 10. Segir í bókinni, að Brown hafi ítrekað öskrað á og bölvað samstarfsmönnum. Hafi Gus O'Donnell, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, á endanum sagt Brown að taka sér tak vegna þess að starfsfólk ráðuneytisins væri óttaslegið. Ekki er hins vegar sagt að Brown hafi lagt hendur á starfsfólkið. 

Talsmaður ráðuneytisins sagði í gær, að það væri algerlega ósatt að ráðuneytisstjórinn hefði farið fram á sérstaka rannsókn á framkomu forsætisráðherrans við starfsfólk sitt.   

Blaðið Sunday Times sagði frá því í gær, að nýlegt sjónvarpsviðtal, þar sem Brown sýndi á sér mýkri hlið en venjulega sést, hafi aukið vinsældir hans og Verkamannaflokksins.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert