Gerry Adams sagður guðfaðir IRA

Gerry Adams, leiðtogi Sinn Fíen.
Gerry Adams, leiðtogi Sinn Fíen.

Í nýrri bók er Gerry Adams, leiðtogi norður-írska stjórnmálaflokksins Sinn Féin, sagður hafa verið einskonar guðfaðir Írska lýðveldishersins, IRA, sem stóð fyrir vopnaðri baráttu gegn Bretum á Norður-Írlandi á ofanverðri síðustu öld. Er Adams sagður hafa stýrt sumum af mannskæðustu sprengjuárásum IRA.

Sinn Féin hafnar þessum ásökunum, sem birtast í bókinni Voices From the Grave. Bókin byggir á viðtölum, sem starfsmenn bandaríska háskólans Boston College tóku við fyrrum félaga í IRA með því skilyrði, að þau yrðu ekki birt fyrr en viðmælendurnir væru látnir. 

Flestar tilvitnanirnar í bókinni eru hafðar eftir Brendan „The Dark" Hughes, sem var félagi Adams í IRA þegar borgarastríðið braust út á Norður-Írlandi árið 1969. Þar börðust kaþólikkar og IRA við mótmælendur og breska herinn. Hughes veitti viðtölin árin 2001 og 2002 en hann lést árið 2008, 59 ára að aldri. 

Í bókinni gagnrýnir Hughes Adams fyrir að afneita tengslum sínum við IRA. Hughes útskýrir mannvirðingaröðina innan IRA á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og sjálfur segist Hughes hafa tekið virkan þátt í byssu- og sprengjuárásum og bankaránum til að fjármagna starfsemi samtakanna.

„Ég framkvæmdi aldrei stórar aðgerðir nema Gerry hefði annaðhvort lagt blessun sína yfir þær eða fyrirskipað þær," er haft eftir Hughes í bókinni. „Nú situr hann á fínni skrifstofu... og neitar öllu. Það er eins og ef Hitler neitaði því að helförin hafi átt sér stað."

Boston College réði norður-írska blaðamanninn Ed Moloney, sem hefur áður fjallað um Adams og IRA í bókinni A Secret History of the IRA, til að skrifa bókina upp úr viðtölunum við Hughes. Í bókinni er einnig vitnað í viðtöl sem tekin voru við David Ervine, sem tók þátt í borgarastríðinu af hálfu mótmælenda. Hann lést árið 2007.

Sagnfræðingar hafa almennt ekki efast um að Adams hafi verið háttsettur herstjóri IRA þótt hann hafi allt frá því hann hóf afskipti af stjórnmálum á Norður-Írlandi árið 1982 neitað aðild að samtökunum.  Þetta er hins vegar í fyrsta skipti, sem fyrrum náinn félagi Adams fullyrðir að hann beri ábyrgð á morðum og hryðjuverkum. Adams var einn af líkmönnunum þegar Hughes var borinn til grafar.

Sinn Féin gerir lítið úr yfirlýsingum Hughes. Segir flokkurinn í yfirlýsingu, að þessar ásakanir séu ekki nýjar og Gerry Adams hafi alltaf neitað þeim. Hughes hafi verið mjög veikur síðustu æviár sín og hann hafi verið andvígur þeirri stefnu, sem lýðveldissinnar á Norður-Írlandi fylgdu.

Moloney segir, að ummæli Hughes verði að skoðast í því ljósi, að hann hafi verið andvígur því að Adams leiddi Sinn Féin inn í samsteypustjórn með öðrum helstu flokkum á Norður-Írlandi.

Talið er að IRA hafi borið ábyrgð á dauða nærri 1800 manns á árunum 1970 til 1997. Árið 2005 lagði IRA hins vegar formlega niður vopn og afneitaði ofbeldi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert