Gagnrýna samlíkingu í Páfagarði

Predikun húspredikara páfa þar sem hann líkti þeirri gagnrýni sem Benedikt páfi og kaþólska kirkjan hafa sætt í umræðunni um kynferðisbrot kirkjunnar manna gegn börnum við gyðingaofsóknir hefur sætt harðri gagnrýni ýmissa samtaka gyðinga sem og talsmanna fórnarlamba kynferðisofbeldis. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Svonefndur húspredikari páfa, Raniero Cantalamessa, flutti messuna í Péturskirkjunni í Róm í gær að Benedikt páfa XVI viðstöddum. Cantalamessa er eini kaþólski klerkurinn sem má prédika yfir páfa.

Federico Lombardi, talsmaður Páfagarðs, lét eftir messuna hafa eftir sér að Cantalamessa hefði ekki talað á vegum Páfagarðs. Tók hann fram að samanburður sem þessi gæti valdið misskilningi og þetta væri ekki opinber afstaða kirkjunnar. Prédikun Cantalamessa var engu að síður birt í heild sinni á forsíðu L'Osservatore Romano sem er opinbert blað Páfagarðs.

Í predikun sinni sagðist Cantalamessa vera innblásin af bréfi frá vini sínum, sem er gyðingur, þar sem viðkomandi sagðist vera í miklu uppnámi vegna þeirra árása sem páfi hafi mátt sæta að undanförnu. Í framhaldinu las hann upp úr bréfinu þar sem vinur hans segist fylgjast reiður með þeim harkalegu árásum sem kaþólska kirkjan, páfinn og allir trúaðir í heiminum hafi orðið fyrir.

„Notast er við staðalmyndir og persónulegri sekt manna og ábyrgð er umsnúið í sameiginlega sekt. Þetta minnir mig á ógeðfelldustu hliðar gyðingaofsókna,“ las Cantalamessa upp úr bréfi vinar sínar síns meðan páfinn hlýddi á.

Talsmaður fórnarlamba kynferðisofbeldis kaþólskra presta í Bandaríkjunum telur ummæli Cantalamessa siðferðilega röng. Framkvæmdastjóri samtaka þýskra gyðinga, Stephan Kramer, segir ósvífnina sem í ummælunum felast ekki eiga sér nein fordæmi.  Segir hann ummælin „ógeðfelld, viðbjóðsleg en fyrst og fremst móðgun við annars vegar fórnarlömb kynferðisofbeldis og hins vegar fórnarlömb helfararinnar.“

Umræðan um barnaníðinga í klerkastétt og hvernig æðstu menn kaþólsku kirkjunnar hafa þaggað þau mál niður áratugum saman hefur valdið miklum titringi innan kirkjunnar. Í Þýskalandi hefur stuðningurinn við kirkjuna snarminnkað á fáeinum vikum. Nú treysta aðeins 17% Þjóðverja kaþólsku kirkjunni.



Benedikt páfi sextándi.
Benedikt páfi sextándi. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert