Vill dauðarefsingu yfir samkynhneigðum

Stjórnvöld víða um heim beita þrýstingi gegn frumvarpi úgandísks þingmanns um að dauðarefsing verði lögð við samkynhneigð. Verði frumvarpið ekki dregið til baka verður þingmanninum David Bahati meinað að ferðast til Bretlands, að því er greint er frá á vef breska blaðsins Guardian.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur einnig fordæmt frumvarpið, svo og ýmis mannréttindasamtök.

Í frumvarpinu er lagt til að lífstíðarfangelsi verði lagt við kynlífi milli tveggja fullveðja einstaklinga af sama kyni. Lagt er til að þeir verði dæmdir til dauða sem stunda kynlíf með einstaklingi af sama kyni sem ekki hefur náð átján ára aldri. Þá er lagt til að dauðarefsing verði lögð við því að vera alnæmissmitaður.

Loks er í frumvarpinu lagt til að þeir verði dæmdir til fangelsisvistar sem „hvetja til samkynhneigðar“, en talið er að með því sé meðal annars vísað til mannréttindasamtaka, svo og þeirra sem láta hjá líða að tilkynna samkynhneigð pör til yfirvalda.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert