Grikkir leggja niður störf

Grikkir eru reiðir.
Grikkir eru reiðir. Reuters

Opinberir starfsmenn í Grikklandi hafa lagt niður störf og hafið tveggja sólarhringa verkfall. Þeir vilja með þessu mótmæla þeim launalækkunum og niðurskurði sem þeir standa frammi fyrir vegna efnahagsvandans þar í landi. Á morgun hefst svo allsherjarverkfall í Grikklandi.

Samþykkt hefur verið að veita Grikkjum 110 milljarða evra björgunarpakka vegna efnhagsvandans, en á móti hafa grísk stjórnvöld kynnt aðgerðaráætlun um niðurskurð og aðhald í ríkisrekstri.

Stefnt er að því að lækka útgjöld sem nema 30 milljörðum evra næstu þrjú árin. Takmarkið er að fjárlagahallinn verði undir 3% af vergri landsframleiðslu árið 2014. Nú mælist hann 13,6%.

Stéttarfélög í Grikklandi segja að aðgerðir stjórnvalda komi harðast niður á lágtekjufólki. Félagar í gríska kommúnistaflokknum fóru eldsnemma í morgun upp a Akropólishæð, þar sem rústur fornra hofa gnæfa yfir borgina. Þar var breitt úr risastórum borða sem á stóð: Þjóðir Evrópu rísi upp. Fólk hrópaði slagorð gegn stjórnvöldum og niðurskurðaráformum þeirra.  

„Við viljum koma boðum til afskekktustu byggða Grikklands og Evrópu," sagði Nikos Papaconstantinou, þingmaður kommúnista í útvarpsviðtali. „Það standa yfir svipaðar ráðstafanir til að afnema tryggingabætur um alla Evrópu. En reiði fólksins mun beinast að samtökum heimsvaldasinna.

Boðað hefur verið til allsherjarverkfalls í Grikklandi á morgun en opinberir starfsmenn lögðu margir niður vinnu í morgun. Búist er við að starfsemi ráðuneyta og annarra opinberra stofnana lamist og sjúkrahús eru rekin samkvæmt neyðaráætlun.  Þá mun innanlandsflug liggja að mestu niðri í dag og allt flug á morgun. 

Andreas Loverdos, atvinnumálaráðherra, sagði í morgun: „Við höfum aðeins eitt markmið, að bjarga Grikklandi, og við ætlum ekki að hvika frá því." 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert