Fer Brown til AGS?

Gordon Brown.
Gordon Brown. Reuters

Vangaveltur eru nú hafnar um hvað Gordon Brown, sem sagði af sér forsætisráðherraembætti í Bretlandi í vikunni, muni nú taka sér fyrir hendur. Ekki þykir ólíklegt að hann muni sækjast eftir framkvæmdastjóraembættinu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington.

Orðrómur er um, að Dominique Strauss-Kahn, núverandi framkvæmdastjóri AGS, hafi áhuga á að fara aftur í forsetaframboð í Frakklandi en kosið verðið 2012. Strauss-Kahn hefur þó til þessa ekkert tjáð sig um framtíðaráform sín. Hann sóttist árið 2006 eftir því að verða forsetaefni franska Sósíalistaflokksins en laut í lægra haldi fyrir Ségolène Royal, sem síðan tapaði kosningunum fyrir Nicolas Sarkozy.

Brown hefur góð tengsl innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann var fjármálaráðherra Bretlands í áratug og hefur lengi verið formaður Alþjóða peninga- og fjármálanefndarinnar sem tekur þátt í að móta stefnu AGS.  Þá benda margir á, að Brown hafi sýnt leiðtogahæfileika og festu þegar hann stýrði Bretlandi gegnum helstu brimskafla fjármálakreppunnar og einnig er vísað til tilrauna hans til að binda enda á fátækt í þriðja heiminum.  

Ekki er hins vegar talið, að Brown fengi embættið möglunarlaust sækist hann eftir því. Bent er á þá stöðu, sem ríkisfjármál Bretlands eru nú í og þau sögð til marks um að Brown sé langt frá því að vera óskeikull í þeim málum. 

„Bresku bankarnir urðu allt of stórir á vakt Gordons Browns og stjórnvöld misstu tökin á fjárlagahallanum," sagði  Simon Johnson, fyrrverandi aðalhagfræðingur AGS.

Þjóðerni Browns gæti einnig unnið gegn honum. Allir þeir 10 menn, sem gegnt hafa embætti framkvæmdastjóra AGS til þessa hafa verið Evrópubúar, rétt eins og allir forstjórar Alþjóðabankans hafa verið Bandaríkjamenn; er þetta vegna óformlegs samkomulags sem gert var við stofnun þessara stofnana. En þegar Strauss-Kahn varð framkvæmdastjóri AGS var þó almennt talið að hann yrði síðasti Evrópubúinn í nokkurn tíma, sem gegndi þessu embætti vegna þess að valdamikil ríki í Asíu gera nú tilkall til aukinna áhrifa.  

Þegar Brown heimsótti Brasilíu á síðasta ári sagði hann sjálfur, að ekki væri nauðsynlegt að næsti yfirmaður Alþjóðabankans yrði Bandaríkjamaður og næst yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yrði Evrópumaður.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert