Kynferðislegt áreiti á Al-Jazeera

Fréttaþulir Al-Jazeera, Shiulie Ghosh og Sami Zeidan.
Fréttaþulir Al-Jazeera, Shiulie Ghosh og Sami Zeidan. AP

Fimm þekktar fréttakonur á sjónvarpsstöðinni Al-Jazeera hafa valið að segja starfi sínu lausu vegna kynferðislegs áreitis yfirmanns síns. Gagnrýna þær stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar fyrir hversu illa þeir hafi tekið á kvörtunarmáli þeirra.

Yfirmaðurinn sem um ræðir er Ayman Jaballah, sem er ritstjóri sjónvarpsstöðvarinnar. Hann mun vera þekktur fyrir íhaldssamar skoðanir sínar og tengsl við Bræðralag múslima. Eftir því sem fram kemur í kvörtun kvennanna á hann að hafa beitt átta konur á stöðinni kynferðislegu áreiti vegna þess að honum fannst föt þeirra og andlitsfarði vera of ögrandi.

Í framhaldi af kvörtun kvennanna var, fyrir nokkrum mánuðum, skipaður rannsóknarhópur sem fara átti yfir málið. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var á þá leið að forsvarsmenn sjónvarpsstöðvarinnar töldu að ritstjórinn hefði rétt á því skipta sér að útliti fréttakvenna sinna. Þegar sú niðurstaða lá ljós fyrir ákváðu fimm af konunum átta, sem kvartað höfðu, að segja starfi sínu lausu í mótmælaskyni. Fréttakonurnar Joumana Nammour, Lina Zahradine, Julnar Moussa, Lona Shibel og Nawfar Afli létu því af störfum um síðustu mánaðamót.

Lina Zahradine hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að deilan snúist ekki aðeins um klæðaburð þeirra heldur séu konurnar orðnar langþreyttar á áralangri ófaglegri framkomu stjórnenda stöðvarinnar í sinn garð.

„Faglega er ekki allt í lagi á ritstjórninni og það þarf að leysa það. Og þar með er ég ekki að vísa til ritstjórnarstefnunnar. Þetta snýst um framkomu stjórnenda í garð undirmanna á ritstjórninni sem er algjörlega óásættanleg,“ segir Zahradine.

Forsvarsmenn Al-Jazeera hafa enn sem komið er ekki viljað tjá sig um málið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert