Lést í særingarathöfn

Fjögurra ára gamall rússneskur drengur lét lífið þegar reynt var að særa úr honum illa anda, sem taldir voru valda veikindum drengsins.

Móðir drengsins og fleiri ættingjar hans leituðu til kóresks andalæknis í þorpi austast í Rússlandi vegna þess að drengurinn var veikur. Mun andalæknirinn nokkru áður hafa meðhöndlað ömmu drengsins, sem þjáist af sykursýki.

Andalæknirinn sagði að drengurinn væri haldinn illum anda og sagði móðurinni að fara heim á meðan hann særði andann út. Þegar móðirin kom hins vegar að sækja drenginn var hann látinn.

Móðirin tilkynnti lögreglu um málið. Lögregla segir, að drengurinn virðist hafa kafnað þegar andalæknirinn þrýsti andliti hans á jörðina. 

Rússnesk stjórnvöld reyna nú að berjast gegn starfsemi fjölda andalækna, töframanna og norna, sem auglýsa í rússneskum fjölmiðlum og bjóðast til að lækna fólk af áfengissýki og eiturlyfjafíkn og yfirleitt öllum kvillum og leysa önnur vandamál.

Lagafrumvarp liggur nú fyrir í rússneska þinginu sem gerir ráð fyrir að banna öðrum en þeim, sem hafa viðurkennd starfsréttindi, að auglýsa starfsemi í fjölmiðlum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert