Segir Arabaleiðtoga vera síonista

Ayman al-Zawahiri.
Ayman al-Zawahiri.

Ayman al-Zawahiri, sem fer næstur Osama bin Laden að völdum í hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda, segir í ávarpi að Arabaleiðtogar séu síonista, sem aðstoði Ísraelsmenn við umsátrið um Gasasvæðið.

„Þessir arabísku síonistar eru hættulegri en gyðingasíonistar," segir Zawahiri í hljóðupptöku, sem birt var á íslamskri vefsíðu. 

Zawahiri, sem er egypskur, gagnrýndi Egyptaland sérstaklega fyrir að áforma að leggja grindverk neðanjarðar til að koma í veg fyrir að Palestínumenn á Gasasvæðinu grafi jarðgöng til að smygla vopnum og ýmsum varningi frá Egyptalandi.  

Hann sakaði Abdullah Jórdaníukonung, Abdullah konung Sádi-Arabíu og Mahmud Abbas um að vera síonistar sem veittu leyniþjónustum Ísraels og Bandaríkjanna upplýsingar. 

Zawahiri gerði einnig gys að Barack Obama, Bandaríkjaforseta, fyrir að segja að talibanar muni ekki ná völdum í Afganistan á ný. 

Bandaríkjastjórn hefur sett 25 milljónir dala til höfuðs Zawahiri, sem hefur nokkrum sinnum sent frá sér ávörp, síðast í desember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert