Bretar þurfa að minnka herinn

Liðsmaður breska hersins í Afganistan borinn til grafar með viðhöfn.
Liðsmaður breska hersins í Afganistan borinn til grafar með viðhöfn. Reuters

Liam Fox, varnarmálaráðherra Bretlands, hefur gefið út að breska ríkið hafi ekki lengur efni á að halda úti jafn stórum og öflugum her og það hefur gert undanfarna áratugi. Ríkið þurfi því að skera niður og minnka umsvif hersins sem því nemur. Yfirlýsingin heyrir til stórtíðinda í varnarmálum.

Fjallað er um málið á vef Daily Telegraph en þar segir að Bretar hafi allt frá síðari heimsstyrjöldinni haldið úti her sem getur tekið þátt í alhliða hernaði, barist gegn skæruliðum eins og í Afganistan og farið fyrir hóflega stórum hernaðaraðgerðum eins og á Falklandseyjum og í Sierra Leone.

Hefur blaðið eftir Fox að herinn þurfi að aðlaga sig að raunverulegum og aðsteðjandi ógnum sem bendi til að fækkað verði í heraflanum, svo sem í orrustuþotu- og skriðdrekadeildum hersins.

Þá sé ekki útilokað að Bretar muni fækka í herliði sínu í Þýskalandi en þar hefur 25.000 lið breskra hermanna haft bækistöðvar allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1945.

Til skoðunar sé að fækka í herliðinu um samtals fjórðung þannig að eftir standi 75.000 lið undir vopnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert