14 ára siglir umhverfis hnöttinn

Hin 14 ára gamla Laura Dekker frá Hollandi er nú lögð af stað í langa ferð en markmið hennar er að slá heimsmet sem yngsta manneskjan sem siglir ein umhverfis jörðina. Hún áætlar að vera 2 ár á leiðinni.  

Fararskjótinn er 38 feta seglskúta að nafni „Guppy". Undirbúningur siglingarinnar hefur ekki verið átakalaus því barnaverndaryfirvöld í Hollandi vildu meina henni að fara með þeim rökum að félagslegur og tilfinningalegur þroski hennar gæti borið skaða af.

Dekker  vann málið gegn barnaverndaryfirvöldum fyrir dómstólum í síðasta mánuði og á laugardaginn lagði hún loks frá bryggju á Gíbraltar. Faðir hennar, sem þjálfaði hana í siglingum, styður dóttur sína heilshugar en segist engu að síður vera í talsverðu uppnámi yfir brottför hennar.

„Tilfinningarnar eru blendnar en það er ekki síst hamingja, ég vona að þetta verði frábær upplifun hjá henni."

Dekker ætlar að byrja á því að sigla til Madeira og Kanaríeyja áður en hún heldur yfir Atlantshafið til Barbados.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert