Ungmenni á dauðalista á Facebook

Reuters

Lögregla í Kólumbíu rannsakar nú morð á þremur ungmennum en nöfn þeirra voru á dauðalista sem birtur var á Facebook nýverið. Í ummælum sem birt voru með nafnalistanum voru ungmennin, sem öll búa í bænum Puerto Asis, vöruð við því að þau ætti skammt eftir ólifað ef þau kæmu sér ekki úr bænum.

Tveir unglingspiltar, Diego Ferney Jaramillo, 16 ára, og Eibart Alejandro Ruiz Munoz, 17 ára, voru skotnir til bana þann 15. ágúst en sá þriðji fimm dögum síðar.

Hefur lögregla sent sérstakt rannsóknarteymi í bæinn til þess að rannsaka hver standi á bak við hótanirnar. Samkvæmt upplýsingum BBC frá lögreglu í Puerto Asis hefur glæpagengi nýverið aukið umsvif sín á svæðinu og ógnað íbúum í bænum.

Alls eru 69 ungmenni á dauðalistanum. Undanfarna daga hafa ættingjar þeirra sem eru á listanum fengið send skilaboð um að ef viðkomandi ungmenni yfirgefi ekki bæinn þá fari eins fyrir honum og þeim sem myrtir voru.

Á mánudag birtist nýr dauðalisti á Facebook og er nafn 31 stúlku á þeim lista. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert