Kosningar í Svíþjóð

Auglýsingaspjöld frambjóðenda í Stokkhólmi.
Auglýsingaspjöld frambjóðenda í Stokkhólmi. Reuters

Þingkosningar fara fram í Svíþjóð í dag og benda skoðanakannanir til þess að mið-hægri bandalag Fredrik Reinfeldts, forsætisráðherra, muni halda velli. Ríkisstjórnarflokkarnir njóta meiri stuðnings en rauðgræna bandalagið svokallaða, í kjölfar skattalækkana og jákvæðra horfa í efnahagsmálum í landinu.

Kjörstaðir voru opnaðir kl. átta að staðartíma (kl. 6 að íslenskum) og verða þeir opnir til kl. 20 (18 að íslenskum tíma).

Sl. 78 ár hafa mið-vinstri flokkar haldið um stjórnartaumana í Svíþjóð í 65 ár. Þeim er eignað að hafa komið á fót sænska velferðarkerfinu. Það yrðu því söguleg tíðindi næði mið-hægri bandalagið að halda velli.

Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að stjórnarflokkarnir muni fá á bilinu 46,9-51,2% atkvæða, sem myndi duga til að halda meirihluta á þinginu, sem telur 349 sæti.

Alls eru sjö milljónir Svía á kjörskrá. Líkt og undanfarin ár er búist við að kjörsókn verði góð.

Athygli vekur að þjóðernisflokkur, Svíþjóðardemókratarnir, á í fyrsta sinn möguleika að ná þingsæti. Svíþjóðardemókratarnir mótmæla fjölgun innflytjenda og gagnrýni þeirra beinist einkum að íslam.

Reinfeldt segist ekki vilja tjá sig um það hvernig mið-hægri bandalagið muni taka á Svíþjóðardemókrötunum komist þeir inn á þing.

Fréttaskýrendur segja að flokkabandalag Reinfeldts eigi í hættu á að missa meirihluta sinn á þingi vegna mikillar hægrisveiflu í landinu.

Talsmenn borgaralega bandalagsins og þess rauðgræna hafa sagt að þeir muni frekar starfa saman heldur en að mynda samsteypustjórn með flokki sem þeir segja að ali á kynþáttafordómum.

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtogi borgaraflokkanna, og Mona Sahlin, …
Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtogi borgaraflokkanna, og Mona Sahlin, forsætisráðherraefni rauðgræna bandalagsins. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert